Tuesday, April 16, 2024
HomeErlentGetur B.J. Penn ennþá slegist á gamals aldri?

Getur B.J. Penn ennþá slegist á gamals aldri?

Penn og Greg Jackson.

Nú á sunnudaginn mun B.J. Penn enn einu sinni snúa aftur í búrið. Maðurinn sem hefur hætt nokkrum sinnum hefur ákveðið að snúa aftur en í þetta sinn verður það fyrir alvöru.

„Motivated B.J. Penn“ er ein mesta lygasaga sem bardagaaðdáendur hafa sagt sjálfum sér í mörg ár. Í hvert sinn sem B.J. Penn tapaði var því haldið fram að Penn hefði ekki æft nógu vel þar sem hann var ekki spenntur fyrir bardaganum. Næst þegar hann berst verður hann allt annar!

Þessi lygasaga hefur lifað í alltof mörg ár og mun eflaust aldrei deyja út. Núna, þegar Penn er að snúa aftur í hundraðasta sinn, lifir hún enn góðu lífi. B.J. Penn, sem hefur ekki unnið bardaga í sex ár, er að fara að vinna Yair Rodriguez á sunnudaginn því hann er loksins að æfa almennilega hjá góðum þjálfara!

Enn einu sinni er maðurinn að snúa aftur eftir að hafa áður lagt hanskana á hilluna. Fyrst sáum við B.J. Penn hætta eftir slæmt tap gegn Nick Diaz. Þar var Penn laminn illa og sagðist hann ekki geta snúið svona útlitandi heim til fjölskyldunnar. Rúmu ári síðar var hann hins vegar aftur kominn í búrið og í þetta sinn gegn Rory MacDonald. Sá kanadíski fór illa með Penn og aftur sagðist hann vera hættur eða í pásu frá MMA.

Þessir bardagar fóru þó fram í veltivigtinni þar sem hann var talsvert minni en andstæðingarnir. Hann ákvað að snúa aftur og mætti Frankie Edgar í fjaðurvigt árið 2014. Það var skrítið að sjá Penn svo langan og grannan við hlið Frankie Edgar en frammistaðan var ein sú versta á ferli Penn. Hann stóð í undarlegri fótastöðu og átti Edgar ekki í miklum erfiðleikum með að taka hann niður. Eftir bardagann sagðist Penn enn einu sinni vera hættur.

Hanskarnir voru þó ekki lengi á hillunni en í janúar 2016 tilkynnti hann að nú ætlaði hann að snúa aftur. Enn einu sinni..

12 mánuðum síðar er hann loksins að fá fyrsta bardagann enda hefur gengið erfiðlega að fá bardaga fyrir Penn. Bardaginn gegn Rodriguez er sá fjórði sem UFC bókar á þessum 12 mánuðum. Upphaflega átti Penn að mæta Dennis Siver á UFC 199 en Siver meiddist og kom Cole Miller í hans stað. Penn framdi minniháttar brot á lyfjareglum USADA þegar hann viðurkenndi að hafa fengið næringu í æð og fékk hann í kjölfarið fjögurra mánaða bann. Bardaginn gegn Miller var því af borðinu en í staðinn fékk hann bardaga gegn Ricardo Lamas í október. Það virtist allan tímann slæm hugmynd enda Lamas einn af þeim fimm bestu í þyngdarflokknum á meðan Siver og Miller voru mun auðveldari andstæðingar fyrir hann á þessu stigi ferilsins.

Það voru því margir sem gátu andað léttar þegar Penn neyddist til þess að draga sig úr bardaganum 11 dögum fyrir bardagann vegna meiðsla. Einhverjir hefðu misst vonina en ekki B.J. Penn, hann er ennþá staðráðinn í að snúa aftur.

Á sunnudaginn mætir hann hinum stórhættulega Yair Rodriguez. Penn segist í þetta sinn vera að gera þetta af fullri alvöru (nokkuð sem hefur margoft heyrst áður) og ætlar hann að ná sér í sitt þriðja belti í UFC. Penn er einn af örfáum sem unnið hefur titil í tveimur þyngdarflokkum. Penn hefur bæði orðið meistari í léttvigt og veltivigt og ætlar nú að ná sér í fjaðurvigtartitilinn 38 ára gamall.

Það sem heldur lygasögunni gangandi sem Penn aðdáendur segja sjálfum sér er sú staðreynd að núna er Penn að æfa hjá Jackson/Winkeljohn í Albuquerque. Loksins loksins hefur Penn sagt skilið við þægindin á Havaí og æft í alvöru bardagaklúbbi með alvöru þjálfurum. Á undanförnum hefur Penn nánast alltaf verið sinn eigin herra og ráðið til sín þjálfara og æfingafélaga til Havaí. Penn hefur nefnilega aldrei verið neitt hrifinn af því að æfa, honum finnst bara ógeðslega gaman að slást.

Þess vegna er B.J. Penn ennþá að þessu. Hann langar ennþá að berjast og langar að ná í þriðja beltið. Hann hreinlega elskar að berjast, elskar að keppa og getur ekki hætt.

Yair Rodriguez verður hættulegur andstæðingur fyrir Penn en það sem gefur aðdáendum hans helst von er Greg Jackson. Hver veit nema Jackson og Penn komi með leikáætlun sem skili Penn sínum fyrsta sigri síðan í nóvember 2010? Penn gæti reynt að taka Rodriguez strax niður (líkt og gegn Jon Fitch) og jafnvel klárað Rodriguez með sínu frábæra jiu-jitsu? Það verður þó erfitt enda eru afskaplega fáir sem gefa Penn einhverja möguleika. Kapparnir mætast á sunnudaginn í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldi í Pheonix.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular