Fyrrum Strikerforce meistarinn Gilbert Melendez féll á lyfjaprófi á dögunum. Hann hefur nú verið settur í eins árs bann frá keppni.
Lyfjaprófið fór fram eftir bardaga hans á UFC 188 þann 13. júní síðastliðinn. Þar mætti hann Eddie Alvarez og tapaði hann eftir einróma dómaraákvörðun. Í Melendez fannst testósterón aukandi efni.
UFC hafa nú þurft að hætta við bardagann á milli hans og Al Iaquinta. Bardaginn átti að vera næstsíðasti bardagi kvöldsins á bardagakvöldinu í San Diego í næstu viku.
Melendez segist ekki hafa viljandi innbyrt nein lyf sem gætu hafa bætt eða haft áhrif á frammistöðu sína en tekur ábyrgð fyrir sínum gjörðum. Hann segist ætla fara betur yfir mataræðið sitt í framtíðinni til að passa að engin matvara eða lyf sem hann neytir innihaldi efni sem flokkast undir ólögleg eða frammistöðubætandi lyf. Melendez biðst innilegrar afsökunar til allra aðdáenda sinna og UFC og tekur fulla ábyrgð á gjörðum sínum.
Melendez hefur einnig verið að vinna sem greinandi fyrir ESPN en í yfirlýsingu frá fréttastöðinni er óljóst hvort hann muni halda áfram sem greinandi á þeirra vegu.