Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaUFC 189: Gunnar Nelson gegn Brandon Thatch

UFC 189: Gunnar Nelson gegn Brandon Thatch

thatchnelsonAðeins fjórir dagar eru í stærsta bardagakvöld ársins þar sem þeir Gunnar Nelson og Brandon Thatch mætast. Hér að neðan ætlum við að greina mikilvægasta bardaga kvöldsins í hugum Íslendingar.

Brandon Thatch er kannski ekki þekktasta nafnið í UFC en þetta er nafn sem margir telja að verði nálægt toppnum í veltivigt UFC í náinni framtíð. Hann hefur aðeins þrisvar barist í UFC, tveir sigrar og eitt tap, og gat ekkert barist árið 2014 vegna meiðsla.

Miklar vonir eru bundnar við hann en hann er í raun stærri, sterkari og hraðari útgáfan af Carlos Condit. Hann hefur klárað alla 11 sigra sína í fyrstu lotu, sex af þeim á innan við 60 sekúndum. Sjö bardaga hefur hann sigrað með rothöggi og fjóra með uppgjafartaki.

Brandon Thatch er virkilega árásargjarn standandi og með mjög góða tæknilega pressu. Hann er með eitruð spörk, skiptir oft um fótastöður (úr örvhentri fótastöðu í rétthenda og öfugt) og notar tæknilega fótavinnu til að pressa andstæðingana að búrinu. Upp við búrið gefur hann andstæðingunm fáar útgönguleiðir og þar byrjar Thatch að raða inn höggunum.

Hann er með góðar hendur en stærstu vopnin hans eru spörk og hnéspörk. Háspörkin hans virka áreynslulaus og beitir hann þeim ótt og títt. Hann stígur inn með þung hnéspörk í skrokkinn og fljúgandi hnéspörk í skrokk eða höfuð ef andstæðingurinn gerir sig líklegan til að fara í fellu.

thatch ko

Í „clinchinu“ er hann einnig afar sterkur. Löngu útlimir hans gefa honum vogarafl til að færa andstæðinginn til og frá á meðan hann raðar inn hnéspörkum og olnbogum í haus og skrokk.

Glíman er ekki hans helsti styrkleiki en hefur sýnt ágætis fellur sjálfur. Árásargirni hans kemur honum stundum í vandræði ef andstæðingurinn getur tímasett hreyfingar hans. Hann er þó iðulega mjög snöggur upp ef hann endar á bakinu og notar búrið vel til að standa upp. Gegn Ben Henderson í hans síðasta bardaga gaf hann bakið á sér í tvígang þegar hann var að reyna að standa upp. Það er eitthvað sem hann getur alls ekki gert gegn Gunnari.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga

  • Grimmar fléttur: Þegar Thatch er búinn að pressa andstæðinginn að búrinu raðar hann inn höggunum. Hnefahögg, hné, háspörk, olnbogar, öllu þessu fléttar hann saman og finnur nánast alltaf opnur á vörn andstæðingsins.
  • Vanur karate: Margir andstæðingar Gunnars eiga erfitt með að átta sig á óhefðbundinni fótastöðu og hreyfingum Gunnars sem koma úr karate. Thatch var aftur á móti sjálfur lengi í karate og er því öllu vanur.
  • Drápseðli: Þegar hann sér andstæðinginn vankaðan er hann ekkert að tvínóna við hlutina – hann klárar bardagann. Að meðaltali er Thatch aðeins 80 sekúndur að klára bardaga sína.
  • Gefur á sér bakið: Þegar Ben Henderson tókst að koma Thatch í gólfið gaf Thatch á sér bakið þegar hann reyndi að standa upp. Það er eitthvað sem Thatch má alls ekki gera gegn Gunnari. Henderson sigraði Thatch eftir hengingu af bakinu svo Thatch gæti hafa unnið í þessu á undanförnum mánuðum.
  • Gengur illa ef hann klárar ekki strax: Allir sigrar hans hafa komið í fyrstu lotu en þegar honum hefur ekki tekist að sigra í fyrstu lotu hefur hann tapað. Það er kannski dálítið ýkt að segja að honum gangi illa ef hann klárar bardagann ekki strax þar sem hann stóð sig mjög vel gegn Ben Henderson (tapaði í 4. lotu). Auk þess er Thatch að skera mikið niður og það gæti unnið með Gunnari.

Leið til sigurs: Það sem Thatch mun gera gegn Gunnari er að þjarma að honum við búrið þar sem Gunnar hefur lítið pláss til að hreyfa sig. Þar mun Thatch leitast eftir að raða inn höggunum. Gunnar sýndi að hann er með sterka höku gegn Rick Story en það getur verið erfitt að harka af sér þung högg í skrokkinn.

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson snýr nú aftur eftir níu mánaða fjarveru frá keppni. Eftir að hafa sigrað fyrstu fjóra bardaga sína í UFC tapaði hann sínum fyrsta bardaga í október í fyrra. Rick Story sigraði Gunnar eftir klofna dómaraákvörðun í erfiðum bardaga.

Því eru bæði Gunnar og Thatch að koma eftir tap í stórum bardögum. Gunnar lærði margt af bardaganum gegn Story líkt og hann kom inn á í Leiðinni að búrinu.

Gunnar Nelson

Gunnar er þekktur fyrir gólfglímu sína enda eru fáir sem standast honum snúninginn þar. Það er nokkuð ljóst að ef Gunnar nær yfirburðastöðu í gólfinu snarminnka sigurlíkur andstæðingsins. Það sýnir sig best í bardagaskori Gunnars enda hefur hann sigrað níu bardaga með uppgjafartaki. Gunnar hefur fulla trú á sjálfum sér standandi og er eflaust óhræddur við að standa gegn hverjum sem er.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga

  • Bestur þar sem Thatch er veikastur: Eins og landsmönnum er kunnugt um er helsti styrkleiki Gunnars gólfglíman. Hann er einn af færustu gólfglímumönnunum í flokknum og þar getur hann sigrað alla. Á sama tíma er gólfglíman stærsti veikleiki Thatch. Takist Gunnari að ná yfirburðarstöðu í gólfinu á hann góða möguleika á sigri.
  • Yfirvegaður: Gunnar er þekktur fyrir að vera gífurlega yfirvegaður undir pressu. Gunnar mun halda ró sinni undir pressu frá Thatch og ekki missa stjórn á sér.
  • Hungraður: Eftir sitt fyrsta tap í MMA mun Gunnar án nokkurs vafa koma hungraður til leiks.
  • Spörk í lærin: Samkvæmt Fight Metric fékk Gunnar 29 spörk í lærin í bardaganum gegn Story. Það er nokkuð sem Thatch gæti nýtt sér en spörk í lærin hafa mikil áhrif á sprengikraft og hraða íþróttamanns og sérstaklega þegar líða tekur á bardagann.

Leið til sigurs: Eins og áður hefur komið fram er Gunnar mun sterkari en Thatch í gólfglímunni. Ef Gunnar tekst að komast í yfirburðarstöðu í gólfinu (mount eða backmount) mun hann án efa klára bardagann.

Spá MMA Frétta: Gunnar er snöggur og mun skjóta leiftursnöggt inn í fellu í 2. lotu og taka Thatch niður. Þar mun hann pipra hann með nokkrum höggum áður en hann læsir hengingunni

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular