Glímumaður mánðarins er nýr liður hjá okkur. Í þessum lið spyrjum við skemmtilega íslenska glímumenn að ýmsu er varðar glímuna en fyrsti glímumaður mánaðarins er svartbeltingurinn Kári Gunnarsson.
Kári Gunnarsson starfar sem gagnagreinir og er búsettur í Danmörku. Kári æfir hjá CSA í Kaupmannahöfn og fékk svarta beltið sitt í brasilísku jiu-jitsu (BJJ) frá Christian Graugart árið 2014.
Hvenær og hvernig byrjaðiru í BJJ?
Hljómar voðalega corny en ég var búinn að vera að væflast í einhverjum bardagaíþróttum í 3-4 ár án þess að finna mig neitt voðalega. Sá Choke myndina með Rickson Gracie og vissi strax að þetta væri sportið sem ég vildi æfa. Fór á netið og spurðist aðeins fyrir og komst að því að Chris Brennan leyfði mönnum að æfa hjá sér og sofa í gymminu fyrir 350 dollara. Þannig að ég safnaði pening og eyddi sumrinu 2002 í Suður-Kaliforníu hjá honum og hef verið að æfa síðan.
Hvernig varstu svona góður í BJJ? Þ.e. hvað helduru að hafi stuðlað að því að þú varðst svona góður?
Tjah, myndi kannski frekar segja að ég sé vandræðalega lélegur miðað við hvað ég er búinn að æfa lengi en þetta hefst allt ef maður bara heldur áfram að æfa. Stóð mig aldrei vel í neinni íþrótt þrátt fyrir að hafa æft ýmislegt gegnum árin og vann heldur ekkert í BJJ mjög lengi. Þetta er bara að vera þrálátur og halda áfram að æfa þó það sé ekki nema nokkrum sinnum í mánuði yfir erfiðu tímana. Mikilvægt bara að hætta ekki.
Hversu oft æfiru BJJ á viku?
Hefur aðeins dalað núna seinasta árið, æfi 2-3 sinnum í viku núna.
Hvernig finnst þér best að æfa? Drillaru mikið eða tekuru meira af frjálsum glímum?
Mæti mest á venjulegar æfingar ef ég er ekki að kenna. Verð að viðurkenna að mér finnst drilling alveg skelfilega leiðinlegt og finnst ég læra lítið af því. Persónulega finnst mér skemmtilegast að troubleshoota með góðum félaga. Var í nokkra mánuði að hitta Halla Gilla [Haraldur Gísli Sigfússon] alltaf og rúlla 40-60% í 40 mínútur fyrir æfingar. Það var alveg æðislegt og fannst ég læra helling á því og svo auðvitað að glíma með fullri mótstöðu líka.
Hvernig undirbýrðu þig fyrir mót?
Ekkert sérstaklega fyrir utan að passa að formið sé í lagi, ekkert ömurlegra en að mæta á mót vitandi að maður hafi ekki lagt nógu mikla vinnu í formið. Hef aldrei verið með nein sérstök gameplans fyrirfram, reyni bara að glíma eins og ég geri á æfingu með aðeins meira intensity.
Hver er þín besta frammistaða á móti og var eitthvað eitt atriði sem þér fannst vera lykillinn að árangrinum?
Á pappír líklega nogi Evróputitillinn (brúnbelta deildin hjá gömlu köllunum) en fannst NAGA mótið sem ég vann 6 mánuðum á undan því betri frammistaða. Var ekki búinn að vinna glímu á móti síðan ég fékk brúna beltið 18 mánuðum á undan því og fannst ég vera lélegasta brúnbeltið í bransanum. Fór svo á NAGA mót og var ánægður með að þetta virtist vera mestmegnis wrestlers af líkamsburðum þeirra að dæma og vann allar þrjár glímur að lokum á uppgjafartaki.
Ég komst svo að því eftirá að þetta voru tvö svört belti og eitt brúnt belti og fattaði strax að ég hefði aldrei staðið mig svona vel á móti þeim ef ég hefði vitað það fyrirfram. Og að ég væri alltof hikandi og efins á móti hærri beltunum. Það losnaði eitthvað mental block þennan daginn og ég fór að opna mig miklu meira á móti efri beltunum á mótum.
Hugsaru vel um mataræðið þitt?
Nei jesús, alveg skelfilega. Segi sjálfum mér að ef Caio Terra getur borðað svona mikið nammi get ég það líka en hann virðist höndla þetta betur en ég. Er illa við grænmeti og elska allt með kolvetni. Reyni samt að halda öllu hollu á virkum dögum en er ógeðslegur um helgar.
Geriru einhverjar styrktar- og/eða þolæfingar eða jafnvel yoga með glímunni?
Eiginlega ekki, er aðeins byrjaður núna eftir að ég fór að æfa minna. Var alltaf að æfa 5-6 sinnum í viku en er komin nær 2-3 núna. Ákvað að byrja að lyfta og gera smá auka þá daga sem ég glími ekki svo ég missi mig ekki alveg. En þetta er allt bara diskópump, lítið með BJJ og styrk að gera.
Skemmtilegasti æfingafélaginn?
Það sveiflar svolítið en ætli að nýji þjálfarinn í gymminu okkar, Christian Ifversen, sé það ekki eins og er. Við erum nákvæmlega jafn stórir og nokkuð jafnir í getu. Glímur sem eru jafnar og báðir ná að sweepa, passa og submitta á 5 mínútum finnst mér ógurlega skemmtilegar.
En leiðinlegasti æfingafélaginn?
Allir wrestlers, þeir fara illa með mig.
Uppáhalds íslenski glímumaður?
Er ekki of mikil klisja að segja Gunni? Held ég segi þá Sighvatur [Sighvatur Magnús Helgason], styttra síðan ég glímdi við hann líka, það var óþægilegt.
Á hvaða erlenda glímumann horfiru mest á?
Ég hef eiginlega aldrei verið með kennara til lengri tíma þannig að ég hef lært bróðurpartinn af minni tækni af netinu, langflest frá Marcelo Garcia. Sérstaklega með guardið, en mér tókst aldrei að fá guardpassið mitt til að virka almennilega fyrr en ég fór að skoða myndböndin frá Mendes bræðrunum. Þeir eru alveg fárnalega góðir að kenna og guardpössin þeirra eru mjög vanmetin finnst mér.
Við þökkum Kára kærlega fyrir svörin.