Eftir smá sumarfrí snýr Glímumaður mánaðarins aftur á dagskrá. Að þessu sinni er Glímumaður mánaðarins nýkrýndur Íslandsmeistari unglinga, Valdimar Torfason.
Valdimar Torfason sigraði bæði -80 kg flokk 16-17 ára drengja og opinn flokk 16-17 ára á Íslandsmeistaramóti ungmenna sem fram fór um síðustu helgi. Valdimar er 16 ára gamall og hefur æft brasilískt jiu-jitsu í nokkur ár.
Hvenær og hvernig byrjaðiru í BJJ?
Minnir að ég hafi byrjað seint árið 2014. Ég var þá nýhættur í körfubolta. Mér leiddist þá svolítið þar sem ég var þá ekki að æfa neina íþrótt en þá kom systir mín Bryndís með þá tillögu að fara á eitthvað námskeið eins og MMA 101 unglingar í Mjölni. Ég vissi ekki að íþrótt eins og MMA væri til á þessum tíma en hún hentaði mér mjög vel þar sem að ein af ástæðunum fyrir því að ég hætti í körfubolta var sú að ég var ekki mjög mikið fyrir liðsíþróttir. Þá byrjaði ég á unglinga námskeiðinu og hef haldið áfram síðan.
Hvað hefur stuðlað að því að þú hefur náð þessu getustigi í glímunni?
Einfalda svarið við því væri bara að ég mæti eins oft og ég get og æfi eins vel og ég get.
Hversu oft æfiru BJJ á viku?
Undanfarið er ég búinn að vera að taka sjö BJJ tíma á viku. Mæti svona fimm sinnum upp í Mjöni á viku til þess að æfa BJJ.
Hvernig finnst þér best að æfa? Drillaru mikið eða tekuru meira af frjálsum glímum?
Ég drilla það sem kennt er á æfingum, en drilla það sem ég vil hafa í game-inu mínu yfirleitt eftir æfingar sem er stundum eitthvað sem ég sé á æfingum eða bara á Youtube. En mér finnst annars best að æfa með frjálsum glímum eftir að hafa farið yfir einhverja ákveðna tækni fyrirfram til þess að aðlaga hana (tæknina) að því þegar fólk er með fulla mótspyrnu.
Hvernig undirbýrðu þig fyrir mót?
Til þess að undirbúa mig líkamlega þá mæti ég bara á æfingar og fylgi bara sama prógrammi og ég hef alltaf haft. Ég borða nú þegar ágætlega hollan mat þannig að engu þarf að breyta þar. Andlega myndi ég segja að ég sé ekki búinn að æfa mig nógu mikið þar sem ég verð mjög stessaður fyrir mót. Það lagast yfirleitt ekkert fyrr en ég er búinn með fyrstu glímu mótsins. Það er samt ekki slæmt fyrir mig að vera stressaður, það heldur mér varkárum en það helsta sem ég verð að passa mig á er að vera ekki svo rólegur að ég er eiginlega ekki vakandi og ekki heldur of stressaður að ég brenni út á fyrstu mínútu á mótinu. Þannig að undirbúningurinn andlega er bara að finna gott stress level.
Hver er þín besta frammistaða á móti og var eitthvað eitt atriði sem þér fannst vera lykillinn að árangrinum?
Besta frammistaðan persónulega var bara núna á Íslandsmeistaramóti ungmenna þegar ég gat loksins notað half guard game-ið sem ég var búinn að vera æfa mig í. Og þá líka að verða Íslandsmeistari, það var ekki slæmt. Lykilatriði að árangri fyrir mér er að æfa eins oft og vel og ég get en einnig að hafa hugarfarið á hreinu á æfingu sem og á mótum.
Hugsaru vel um mataræðið þitt?
Já já, ég borða ekki það sem að fólk myndi kalla drasl mat eins og hamborgara eða eitthvað þannig almennt. En ég borða alveg frekar mikið stundum en það er yfirleitt nokkuð hollur matur þannig að ég hugsa alveg nokkuð vel um mataræðið.
Geriru einhverjar styrktar- og/eða þolæfingar með glímunni?
Styrktaræfingarnar hafa yfirleitt bara verið þrjár basic æfingar; réttstöðulyfta, bekkpressa og stundum hnébeygjur en ég geri þær ekkert oft, bara í íþróttatímum í skólanum mínum þar sem að þær eiga sér stað í World Class. Geri eiginlega ekki neinar þolæfingar sem er mjög líklega eitthvað sem ég ætti að fara huga að.
Skemmtilegasti æfingafélaginn?
Þeir eru svo margir en Sveinn Óli Guðmundsson er sá sem ég er yfirlett með. Guardið hans er algjört hauga vesen.
Leiðinlegasti æfingafélaginn?
Haha það er líka Sveinn Óli Guðmundsson, eins og ég sagði, guardið…
Uppáhalds íslenski glímumaður?
Þessi er smá erfið það sem að ég þekki nú bara þá frá Mjölni en ef ég þyrfti að velja þá væri það líklegast hann Gunni Nels.
Á hvaða erlenda glímumann horfiru mest á?
Ég er ekki alveg viss hver það er sem ég er búinn í heildina að horfa mest á en undanfarið er það búið að vera hann Eddie ‘Flat Earth’ Bravo, þ.e.a.s. þegar kemur að tækni myndböndum. Annars er ég búinn að vera að horfa á glímur hjá Rousimar Palhares undanfarið. Hvernig getur maður ekki horft á silfurbaksgórillu sem er freaking leg lock expert? ruglað mix!