Wednesday, February 21, 2024
HomeErlentGoðsögnin: Kevin Randleman

Goðsögnin: Kevin Randleman

kevin randleman 1Eins og við greindum frá í síðustu viku féll Kevin Randleman frá. Hann var aðeins 44 ára gamall þegar hann fékk hjartaáfall og er hann Goðsögn dagins.

Kevin Randleman fæddist í Sandusky í Ohio þann 10. ágúst 1971. Hann átti 10 systkini og ólst upp í mikilli fátækt. Randleman átti ekki auðvelda æsku og var misnotaður kynferðislega sem barn og var alltaf í götuslagsmálum. Þrátt fyrir það skaraði hann fram úr í öllum íþróttum. Hann keppti í ólympískri glímu, spretthlaupi og amerískum ruðningi og var ansi efnilegur í öllum greinunum.

Glíman var þó sú íþróttagrein sem hann valdi og nýttist það honum vel á MMA ferlinum. Randleman varð þungavigtarmeistari UFC árið 1999 og átti síðar marga frábæra sigra í Pride. Honum var ávallt lýst sem miklum ljúflingi og gaf sér alltaf tíma til að hjálpa upprennandi bardagamönnum. Hann gaf sér líka alltaf tíma til að spjalla við aðdáendur og mætti til að mynda í 13 ára afmæli aðdáenda síns.

Upphafið

Eins og áður segir glímdi Randleman á skólaárum sínum og náði þar frábærum árangri. Hann hafnaði í 2. sæti í efstu deild bandarísku háskólaglímunnar árið 1991 og vann titilinn 1992 og 1993. Á sínu fjórða ári keppti hann ekki í glímunni þar sem námsárangur hans þótti ekki nægilega góður.

Nokkrum árum síðar fékk hann símtal frá gamla glímuþjálfaranum sínum, Mark Coleman, sem spurði Randleman hvort hann væri ekki til í bardaga. Randleman hafði lítin áhuga í fyrstu en þegar Coleman sagði honum að hann fengi 30.000 dollara fyrir sigur ákvað Randleman að slá til.

Randlmen tók sína fyrstu þrjá bardaga á einu og sama kvöldinu (22. október 1996) í Brasilíu og sigraði UVTF 4 útsláttarkeppnina. Þremur árum síðar komst hann í UFC þar sem hann varð þungavigtarmeistarinn.

Ágætis stökkkraftur.
Ágætis stökkkraftur.

Einkenni

Það sem einkenndi Randleman helst var hve ótrúlegur íþróttamaður hann var. Hann hafði ótrúlegan sprengikraft, styrk og hraða og vilja margir meina að hann sé einn besti íþróttamaður sem barist hefur í MMA. Randleman hefði sennilega getað farið lengra sem bardagamaður ef hann hefði fengið betri þjálfun og þjálfara sem skildu MMA betur. Þegar Randleman átti sín bestu ár sem íþróttamaður var þjálfunin í MMA afar takmörkuð. Hann æfði lengst af hjá Mark Coleman í Team Hammer House en samkvæmt fyrrum liðsfélaga hans, Phil Baroni, æfðu þeir saman í bílskúr Coleman með einum boxpúða. Þar var enginn almennilegur MMA þjálfari og slógust þeir í bílskúrnum á milli þess sem þeir æfðu sig á boxpúðanum.

Glíman var auðvitað hans helsti styrkleiki enda virtist hann geta kastað hverjum sem er yfir hausinn á sér. Hann var aldrei tæknilega góður í brasilísku jiu-jitsu og lét oft ná sér í uppgjafartök þegar hann var ofan á þar sem hann skorti almennilega þjálfun. Randleman gat oft komið sér úr slæmum stöðum með ótrúlegum sprengikraft sínum.

Stærstu sigrar

Það fer ekki á milli mála hver stærsti sigur hans var. Kevin Randleman rotaði Mirko ‘Cro Cop’ Filipovic í apríl 2004 sem þóttu afar óvænt úrslit. Cro Cop var á þessum tíma ógnvænlegur sparkboxari sem hafði klárað átta af níu sigrum sínum með rothöggi fram að bardaganum. Randleman viðurkenndi eftir bardagann að hann hefði verið skíthræddur við Cro Cop.

„Ekki halda að ég hafi ekki verið hræddur á leið í hringinn í kvöld. Ég er mannlegur eins og allir aðrir. En ég myndi fara til heljar og til baka fyrir ykkur,“ sagði hann við áhorfendur eftir bardagann.

Verstu töp

Randleman átti sín bestu ár í kringum 2002 í Pride í Japan. Eftir það fór að halla verulega undan fæti og sigraði hann aðeins þrjá bardaga og tapaði 11 þar til hann hætti árið 2011.

Quinton ‘Rampage’ Jackson rotaði hann er þeir mættust í Pride árið 2003 og var það versta rothöggið á ferlinum að hans eigin sögn. Randleman tapaði eftir „guillotine“ hengingu fyrir Cro Cop eftir aðeins 42 sekúndur er þeir mættust aftur árið 2004 og var það fyrsti sigur Cro Cop eftir uppgjafartak. Verstu töpin eru þó sennilega síðustu bardagar hans á ferlinum þar sem hann tapaði fyrir tiltölulega óþekktum andstæðingum.

Meiðsli Randleman verður að taka með í reikninginn. Á seinni árum ferilsins var Randleman þjakaður af meiðslum og fékk einhverja verstu sýkingu í manna minnum eins og sjá má hér að neðan.

Kevin_Randleman_staph_infection

Frægasta tapið er eflaust tapið gegn Fedor Emelianenko. Randleman lyfti Emelianenko hátt upp og kastaði honum á hausinn og er það eitt frægasta kast í sögu MMA. Emelianenko lét þetta þó hafa lítil áhrif á sig og sigraði Randleman með uppgjafartaki skömmu síðar.

randleman kast

Fáir vita

Í úrslitakeppninni í háskólaglímunni árið 1993 fór kjálkinn hans úr lið í annarri glímunni hans á mótinu. Randleman lét það ekki hafa mikil áhrif á sig og skellti kjálkanum aftur í lið og kláraði glímuna. Ekki nóg með að klára glímuna heldur vann hann næstu fjórar glímur þann dag og varð landsmeistari í efstu deild háskólaglímunnar.

Randleman átti að mæta Pedro Rizzo um þungavigtartitilinn á UFC 24 í mars 2000. Bardaginn átti að vera aðalbardagi kvöldsins en ekkert varð úr bardaganum það kvöld. Þegar Randleman var að hita upp baksviðs fyrir bardagann rann hann og skall með höfuðið á steypt gólfið. Randleman rotaðist og var fluttur upp á sjúkrahús og þurfti því að hætta við bardagann tæpum klukkutíma fyrir bardagann.

Renzo Gracie grátbað Randleman um að koma og æfa hjá sér. Renzo vildi ólmur kenna Randleman BJJ enda sá hann hve góður íþróttamaður hann var en skorti tæknina. Renzo bauðst meira að segja til að elda fyrir hann morgunmat á hverjum degi ef hann myndi koma og æfa hjá sér en af einhverjum ástæðum tók Randleman aldrei boðinu.

Randleman var alltaf í góðum tengslum við aðdáendur sína. Hann eyddi alltaf nokkrum dögum í mánuði í að svara aðdáendabréfum og ef aðdáendurnir skildu eftir símanúmer hringdi hann stundum í þá til að þakka þeim fyrir stuðninginn. Það var nokkuð sem fór alltaf í taugarnar á konunni hans enda fór símreikningurinn upp úr öllu valdi þar sem símtölin voru stundum til Pakistan eða til annarra fjarlægra landa.

Hvar er hann í dag?

Eins og við sögðum í upphafi greinarinnar lést Randleman eftir hjartaáfall í síðustu viku. Hann er því vonandi á góðum stað núna. MMA er enn svo ung íþrótt og er Randleman aðeins annar UFC meistarinn sem fellur frá. Við yfirferð á ferli hans verður að taka með í reikninginn að Randleman var á sterum hluta ferilsins sem hefur eflaust ekki haft neitt alltof góð áhrif á hjartað og hans heilsu.

Blessuð sé minning hans.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular