Goðsögn vikunnar er enginn annar er Mark Coleman. Hann vann titla í bæði UFC og Pride og hefur verið nefndur guðfaðir „ground and pound“ tækninnar. Coleman var einn af fyrstu glímuköppunum sem keppti í MMA þegar hann var ennþá upp á sitt allra besta.
Mark Coleman einfaldlega keyrði menn niður eins og jarðýta og lét þá finna fyrir því á gólfinu þar til dómarinn þurfti að rífa hann af. Hann sannaði að ólympísk glíma er góð og gild bardagaaðferð sem virkar í alvöru bardaga og á skilið að vera viðurkenndur sem einn besti bardagamaður allra tíma.
Upphafið
Mark Coleman er fæddur og uppalinn í Ohio fylki í Bandaríkjunum. Hann keppti í ólympískri glímu frá unga aldri og vann hina ýmsu titla í greininni. Hann varð fjórfaldur Pan American meistari, vann silfur á heimsmeistaramótinu árið 1991 og ætlaði sér gull á ólympíuleikunum árið 1992 í Barcelona. Hann þurfti hins vegar að sætta sig við sjöunda sætið eftir tap gegn Heiko Balz. Sjón er sögu ríkari.
Fjórum árum síðar reyndi hann aftur við ólympíleikana en komst ekki upp úr undankeppninni. Eitthvað varð hann að gera svo næsta skref var að prófa nýja og skrítna íþrótt sem hann hafði séð í sjónvarpinu sem menn kölluðu „mixed martial arts“.
Coleman byrjaði MMA ferilinn með látum. Fyrsta bardagakvöldið hans var UFC 10 þar sem hann sigraði Moti Horenstein, Gary Goodridge og Don Frye sama kvöldið og vann þar með mótið. Eftir það var ekki aftur snúið.
Einkenni
Menn vissu hverju þeir máttu eiga von á þegar þeir mættu Mark ‘The Hammer’ Coleman en fáir gátu stoppað það. Coleman er hreinræktaður glímukappi en varð aldrei mjög góður standandi. Hann lagði upp með að koma mönnum í gólfið, þreyta þá, kýla og vinna. Hann var vöðvaköggull, 185 cm á hæð og um 100 kg. Hann hefur alltaf þótt einstaklega vinalegur og er vel liðinn af flestum. Hér að ofan má sjá hann trompast eftir fyrra tapið gegn Fedor Emelianenko.
Stærstu sigrar
Mark Coleman barðist við marga af þeim bestu og sigraði oftar en ekki. Hann sigraði tvö UFC mót, þ.e. UFC 10 og 11 sem bæði eru þýðingarmikil. Hans stærstu sigrar voru hins vegar tveir. Í UFC 12 árið 1997 sigraði hann sjálfan Dan ‘The Beast’ Severn og varð þar með fyrsti UFC meistarinn í þungavigt.
Eftir erfitt tímabil þar sem Mark Coleman tapaði fjórum af fimm bardögum tók hann þátt í fyrsta Pride Grand Prix mótinu í Japan. Coleman sigraði fyrstu þrjá andstæðinga sína og mætti Igor Vovchancyn í úrslitunum. Coleman náði að yfirbuga Vovchancyn með glímustyrk sínum og kláraði að lokum bardagann með nokkrum rosalegum hnjáspörkum í höfuðuð sem voru fullkomlega lögleg í þá daga.
Verstu töp
Mark Coleman tapaði UFC titlinum fyrir Maurice Smith en mun verra tap fylgdi hins vegar strax í kjölfarið. Coleman mætti hinum unga og efnilega Pete Williams sem kom úr hinum frægu æfingabúðum, The Lion´s Den. Eftir 12 mínútur var Coleman gjörsamlega búinn á því og Williams nýtti sér tækifærið með vel tímasettu sparki beint í andlit Coleman. Rothöggið er eitt frægasta rothögg í sögu UFC.
Fáir vita
Það var WWE stjarnan Kurt Angle sem sigraði Mark Coleman í undankeppninni fyrir Ólympíuleikana árið 1996.
Mark Coleman seldi Grand Prix beltið sitt á eBay í fyrra fyrir 24.500 dollara.
Mark Coleman á tvær dætur. Önnur þeirra, hin 17 ára Kenzie, er ein besta fimleika kona Bandaríkjanna.
Hvar er hann í dag?
Coleman hefur undanfarið verið að jafna sig eftir mjaðmaskiptaaðgerð en mjöðmin var það sem fékk hann að lokum til að hengja upp hanskana eins og sagt er. Á tímabili var útlitið slæmt þar sem hann átti ekki fyrir aðgerðinni. Góður vinur hans og fyrrum UFC bardagakappi, Wes Sim, kom hins vegar til bjargar. Hann stofnaði hópfjármögnun og safnaði fyrir aðgerðinni með framlögum frá aðdáendum. Kappinn er í skýjunum yfir nýju mjöðminni og horfir bjartsýnn fram á við.
Hér er nýleg heimildarmynd sem UFC gerði um kappann fyrir stuttu:
https://www.youtube.com/watch?v=1w00X-Zf5R8