Sunday, April 21, 2024
HomeErlentGoðsögnin: Rich Franklin

Goðsögnin: Rich Franklin

RichFranklinGoðsögnin þennan föstudag er stærðfræðikennarinn Rich Franklin. Þessi fyrrum millivigtarmeistari UFC tilkynnti í vikunni að hann væri hættur en hann hefur þó ekkert barist í tæp þrjú ár.

Rich Franklin er ein af goðsögnunum í MMA. Hann varð millivigtarmeistari UFC árið 2005 og varði beltið tvívegis áður en mjóróma Brasilíumaður að nafni Anderson Silva mætti á svæðið. Franklin var vel að máli farinn og talaði oft fyrir hönd UFC í rökræðum um hætturnar í MMA.

Upphafið

Rich Franklin byrjaði í karate sem unglingur og lærði uppgjafarglímu á kennslumyndböndum. Þegar hann sá litla MMA keppni auglýsta í hverfisblaðinu ákvað hann að prófa þetta. Hann æfði stíft í fjóra mánuði í litlum bílskúr með vini sínum fyrir keppnina og gekk vel. Hann og vinur hans héldu æfingunum áfram og komst Franklin alla leið í UFC. Síðar setti Franklin meiri alvöru í æfingarnar sínar og æfði brasilískt jiu-jitsu, box og Muay Thai. Í dag er hann svart belti í brasilísku jiu-jitsu undir Jorge Gurgel.

rich franklinEinkenni

Franklin var góður á öllum vígstöðum bardagans á tímum þegar það þótti sjaldgæft. Hann er með 15 sigra eftir rothögg og tíu eftir uppgjafartök sem sýnir hve hættulegur hann var. Stuttbuxur hans voru einkennandi fyrir hann en oftar en ekki var Franklin í bleikum (og stundum brúnum og bleikum) stuttbuxum. Framkoma hans utan búrsins var einnig heillandi þar sem hann kom vel fyrir og var hinn kurteisasti á tímum þegar bardagamenn höfðu kannski ekki bestu ímyndina.

Stærstu sigrar

Stærstu sigrar hans eru sennilega báðir sigrar hans sem meistari og sigurinn á Evan Tanner um millivigtartitilinn árið 2005. Rothöggið gegn Nate Quarry er þó sennilega frægasti sigur hans þar sem rothöggið lifði lengi í hinum ýmsu kynningarmyndböndum UFC.

Rich Franklin Nate Quarry Ko

Verstu töp

Verstu töpin voru gegn Anderson Silva. Franklin tapaði beltinu þegar Anderson Silva gjörsigraði Franklin með rothöggi eftir tæpar þrjár mínútur í fyrstu lotu. Fyrir bardagann töldu flestir að þetta yrði jöfn og spennandi viðureign en Anderson Silva var ekki á sama máli. Eftir tvo sigra í röð fékk Franklin annað tækifæri gegn Silva en útkoman var sú sama – rothögg frá Anderson Silva eftir hné. Þá má einnig nefna rothöggið gegn Cung Le. Nokkuð óvænt tókst Le að steinrota Franklin í fyrstu lotu en það var síðasti bardagi Franklin á ferlinum.

rich ace franklin

Fáir vita

Þetta vita sennilega flestir en Rich Franklin var stærðfræðikennari áður en hann gerðist atvinnubardagamaður. Franklin kenndi í gagnfræðiskóla en hann er með meistaragráðu í stærðfræði.

Franklin ber viðurnefni Ace sem vísar til persónunnar Ace Ventura en Franklin þykir afar líkur leikaranum Jim Carrey. UFC lýsandinn Joe Rogan hefur oft sagt Franklin vera eins og reiður Jim Carrey.

Franklin hefur barist 11 bardaga gegn andstæðingum sem hafa annað hvort verið meistarar í UFC eða Pride. Þessir bardagamenn eru Evan Tanner (tvisvar mæst), Lyoto Machida, Anderson Silva (tvisvar mæst), Wanderlei Silva (tvisvar mæst), Dan Henderson, Vitor Belfort, Chuck Liddell og Forrest Griffin.

Hvar er hann í dag?

Í dag er Franklin í djús bransanum en hann á og rekur djúsbarinn Ze/Lin í Beverly Hills. Franklin er skarpur strákur sem hafði alltaf nokkur hliðarverkefni með MMA ferlinum eins og fatamerkið American Fighter. Í apríl 2014 var hann kynntur sem varaforseti ONE FC bardagsamtakanna þar sem hann er nokkur skonar andlit bardagasamtakanna og ferðast um Asíu til að halda námskeið og fleira. Hann hélt afar áhugaverðan Ted fyrirlestur fyrir skömmu sem lesendur ættu að horfa á hér að neðan.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular