spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Tank Abbott

Goðsögnin: Tank Abbott

545937_124360117699759_1506562012_n-608x280

Goðsögnin að þessu sinni vann hvorki UFC titil né nokkurn annan titil á ferlinum. Hann barðist reyndar aðeins einu sinni um titil og tapaði þá illa. Tank Abbott tapaði oftar en hann sigraði en var engu að síður einn alræmdasti bardagamaður síns tíma.

Þrátt fyrir töpin var Tank Abbott ógnandi maður með þungar hendur og banvæna störu. Hann barðist við marga af bestu bardagamönnum síns tíma eins og Dan Severn, Don Frye, Vitor Belfort, Pedro Rizzo, Frank Mir og Kimo Leopoldo. Kappinn er kannski ekki goðsögn í sama skilningi og Chuck Liddell og fleiri en hann endurspeglar tíðarandann sem ríkti á upphafsárum UFC þegar hann var stjarna. Kynnumst kappanum nánar.

Upphafið

David Lee Abbott fæddist árið 1965 á Huntington Beach, Kaliforníu. Hann byrjaði 9 ára að æfa ólympíska glímu og hélt því áfram í gegnum menntaskólaárin og inn í háskóla þar sem hann náði sér í eftirsóttu nafnbótina „All American“ (á topp átta á sínum þyngdarflokki). Hann æfði einnig ruðning á tímabili en kláraði svo ekki háskólann og starfaði í kjölfarið á hinum ýmsu vinnustöðum, hálf stefnulaus.

young-tank-abbott

Abbott varð þekktur fyrir að taka þátt í mörgum götubardögum og fyrir að vinna þá. Hann átti það einnig til að koma sér í vandræði en í eitt skipti þegar hann var að störfum í áfengisverslun lamdi hann leiðinlegan viðskiptavin illa sem kostaði hann sex mánuði í fangelsi. Fræg ummæli dómarans sem hafði umsjón með málinu voru: „Mr. Abbott, you are a maniac. I’m surprised you haven’t killed somebody.“

Abbott hóf MMA ferilinn þrítugur. Hans fyrsti bardagi var árið 1995 í UFC 6 þar sem hann barðist þrisvar í einnar nætur útsláttarkeppni. Fyrstu tvo bardagana afgreiddi hann með fljótu rothöggi en í úrslitunum mætti hann Rússanum Oleg Taktarov sem var með svart belti í japönsku jiu-jitsu. Eftir tæpar 18 mínútur sigraði Taktarov með „rear naked choke“ og vann þar með mótið. Abbott tapaði kannski lokabardaganum en hafði stimplað sig rækilega inn hjá aðdáendum sem eftirminnilegur rotari.

tank-abbott-ko

Einkenni

Tank Abbott var aldrei neinn balletdansari í búrinu. Þrátt fyrir bakgrunn í glímu var bardagastíllinn mjög fyrirsjáanlegur. Það mátti alltaf stóla á að hann myndi setja í brún, þramma beint að andstæðingnum og varpa bombum. Útlitslega var einkennið tignarlegt skegg, gervi framtennur og rakað höfuð, eins og gangandi auglýsing fyrir mótorhjólaklúbb.

Stærstu sigrar

Tank Abbott tapaði fyrir öllum stórum nöfnunum sem talin voru upp í inngangnum. Hann gaf þeim mörgum hörku bardaga en tapaði oft á tíðum af því að hann reyndi ekki að sigra á stigum. Abbott var einfaldlega ekki týpan til að næla sér í fellu í lok lotu til að tryggja sér stigin. Það gerðu andstæðingarnir hins vegar oft á tíðum.

cabbage

Stærsti sigur Tank Abbott var sennilega gegn Wesley ‘Cabbage’ Correira sem var nokkuð virtur bardagakappi. Þeir mættust fyrst á UFC 45 þar sem bardaginn var stöðvaður eftir ljótan skurð á höfði Abbott. Þeir börðust svo aftur á bardagakvöldinu Rumble on the Rock 7 þar sem Abbott rotaði Correira á tæpum tveimur mínútum.

Verstu töp

Eins og komið hefur fram voru töpin nokkuð mörg eða 15 talsins. Segja má að versta tapið hafi komið þegar mest var undir. Á UFC 15 barðist Tank Abbott um UFC titilinn í þungavigt við Maurice Smith sem hafði tekið titilinn af Mark Coleman nokkrum mánuðum áður. Smith var góður sparkboxari sem náði að halda Abbott frá sér og sparka ítrekað í fætur hans. Eftir átta mínútur gafst Abbott hreinlega upp. Fyrir Abbott hefur það sennilega verið verra en rothögg.

Fáir vita

Tank Abbott skrifaði sjálfsævisögu sem ber heitið Bar Brawler, efnið segir sig sjálft. Bókin á að vera sú fyrsta af þremur og þykir þrælskemmtileg.

bar brawler

Árið 1997 kom Tank Abbott fram í Friends þætti í þriðju seríu (The one with the Ultimate Fighting Champion). Hann lúbarði Pete Becker, leikinn af Jon Favreau, sem virtist í algjörri afneitun eftir bardagann.

Nafnið Tank fékk Abbott frá starfmönnum UFC sem fengu það lánað frá persónunni Tank Murdock í kvikmyndinni Every Which Way But Loose.

Einn besti bardagi Tank Abbott á ferlinum var á UFC 11 gegn Scott Ferrozzo. Eftir 15 mínútur sigraði Ferrozzo á stigum en það vita ekki allir að þessir tveir mættust aftur í bakgarði nokkrum í Ohio þar sem málið þótti óútkljáð. Eftir 15 mínútna lotu og þriggja mínútna framlengingu var Abbott úrskurðaður sigurvegari, hugsanlega af garðyrkjumanninum.

abbott ferrozzo

Hvar er hann í dag?

Þessa dagana er Tank Abbott í hinu og þessu. Hann var með hlaðvarp sem entist að vísu ekki lengi og skrifar bækur eins og fram kom að ofan. Abbott er hættur að berjast en heldur þó áfram að rífa kjaft en fyrir stuttu vakti hann athygli þegar hann sagðist geta lamið Rondu Rousey. Hann sagðist geta lamið hvaða stelpu sem er og bætti við að ef hún myndi tapa yrði hún að útbúa fyrir hann samloku en ef hann myndi tapa myndi hann borga henni 100.000 dollara. Mikill séntilmaður þarna á ferðinni.

Það kemur kannski eilítið á óvart en Tank Abbott fjárfesti vel fyrir peninginn sem hann aflaði á meðan hann var í UFC. Það hefur hjálpað honum mikið eftir að ferlinum lauk og er hann sagður lifa ágætis lífi í dag eftir góðar fjárfestingar.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular