spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Tito Ortiz

Goðsögnin: Tito Ortiz

Goðsögnin snýr aftur eftir langa fjarveru. Að þessu sinni er það Tito Ortiz sem hefur lagt hanskana á hilluna eftir 20 ár í þessari erfiðu íþrótt sem kölluð er MMA.

Tito Ortiz hefur oft á tíðum verið óvinsæll og jafnvel hataður af aðdáendum og öðrum bardagamönnum. Ortiz er hins vegar óumdeildur brautryðjandi og var sérstaklega mikilvægur í árdaga íþróttarinnar. Margir bardagamenn eiga þennan eina andstæðing sem þeir börðust tvisvar eða þrisvar við sem mótaði feril þeirra en Tito átti nokkra svoleiðis. Hann barðist þrisvar við Ken Shamrock, tvisvar við Chuck Liddell, tvisvar við Forrest Griffin og tvisvar við Rashad Evans. Toppi það einhver.

Tito Ortiz var ein stærsta stjarna UFC á tvísýnum tíma í sögu bardagasamtakanna. Hann átti því beinan þátt í að halda UFC á lífi þegar það rambaði á barmi gjaldþrots í kringum árið 2000. Ortiz var annar UFC meistari sögunnar í léttþungavigt og varði beltið fimm sinnum. Hann var eftirminnilegur persónuleiki, eitt fyrsta „illmennið“ í MMA, þekktur sem The Huntington Beach Bad Boy og einn sá fyrsti sem leyfði sér að vera með stæla og gat í alvörunni barist

Uppruni

Tito er gælunafn en hann var skírður Jacob Christopher Ortiz. Hann fæddist í Huntington Beach í Kaliforníu árið 1975 þar sem hann bjó og æfði alla tíð. Tito byrjaði snemma að stunda ólympíska glímu og átti mjög góðan feril, sérstaklega á yngri árum. Hann fór í gegnum erfitt tímabil þar sem hann ánetjaðist fíkniefnum og seldi sjálfur amfetamín. Ungur ákvað hann hins vegar að gerast bardagamaður og fór að æfa með Tank Abbot. Fyrsti bardagi hans á ferlinum var á UFC 13 árið 1997 þar sem Tito sigraði á rothöggi eftir hálfa mínútu.

Einkenni

Eitt helsta líkamlega einkenni Tito Ortiz er hvíta hárið og mexíkanska útlitið en faðir hans var af mexíkönskum uppruna. Tito er glímukappi sem einkenndi MMA bardagastíl hans alla tíð. Hann var þekktur fyrir að ná mönnum í gólfið og klára bardaga með rosalegum höggum í gólfinu. Tito gerði í því að vera leiðinlegi gaurinn og fólk vildi oftar en ekki sjá hann tapa. Tito var þjakaður af meiðslum og þá sérstaklega á seinni hluta ferilsins. Eitt af einkennum hans voru áhugaverðar afsakanir eins og þegar hann sagðist hafa barist með sprungu á höfuðkúpunni.

Stærstu sigrar

Tito hefur barist við ótal stór nöfn, kannski fleiri en nokkur annar, og á nokkra mjög góða sigra. Á UFC 25 sigraði hann Wanderlei Silva aðeins 25 ára gamall og varð þar með UFC meistari. Titilinn varði hann meðal annars gegn Evan Tanner og Ken Shamrock. Síðar sigraði hann Vitor Belfort á UFC 51 og Forrest Griffin á UFC 59. Einnig má nefna sigur hans gegn Ryan Bader á UFC 132 en Bader var talinn miklu líklegri til sigurs en þurfti að játa sig sigraðan eftir þétt “guillotine” frá Tito í fyrstu lotu. Það var fyrsti sigur hans í tæp fimm ár og breytti hann viðurnefni sínu í „The Peoples Champ“ eftir sigurinn á Bader.

Verstu töp

Tito tapaði tólf sinnum á ferlinum. Töpin voru misjafnlega slæm en tapið gegn Randy Couture á UFC 44 var með þeim verri. Hann tapaði á stigum en Couture niðurlægði hann með bókstaflegri flengingu og tók af honum titilinn. Tapið gegn Chuck Liddell í hans næsta bardaga á UFC 66 var ekki síður slæmt en Chuck gekk frá honum með rosalegri fléttu í byrjun 2. lotu. UFC 66 var þá mest selda Pay Per View í sögu UFC með yfir milljón PPV enda Tito og Chuck stórar stjörnur.

Fáir vita

Þegar ungur Tito var að undirbúa feril sinn sem bardagamaður vann hann í erótískri búð sem hét Spanky’s Adult Novelty Store.

Tito átti mjög erfiða æsku en foreldrar hans voru fíklar og móðir hans stundaði vændi að hans sögn.

Ortiz átti í illdeilum við Dana White um árabil. Á tímabili stóð til að þeir myndu berjast í hnefaleikum en sem betur fer varð ekkert af þeirri vitleysu.

Hvar er hann í dag

Eins og MMA aðdáendur vita sigraði Tito Ortiz Chael Sonnen í Bellator núna um helgina. Það var síðasti bardagi Tito á ferlinum (þar til annað kemur í ljós) og góður endir á löngum ferli. Tito hefur verið í umboðsmennsku og var meðal annars umboðsmaður Cris ‘Cyborg’ Santos um tíma. Þá hefur hann verið í ýmsum rekstri með vörumerkið sitt „Punishment“ og m.a. selt fæðubótarefni og föt undir merkinu.

Það er þó ljóst að hann á ekki mikla framtíð fyrir sér sem lýsandi eða spyrill.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular