0

Greg Hardy: Ég klúðraði þessu

Greg Hardy var dæmdur úr leik í frumraun sinni í UFC í gær. Hardy tók fulla ábyrgð á mistökum sínum og segir þetta ekki hafa verið með vilja gert.

Greg Hardy mætti Allen Crowder í gær í næstsíðasta bardaga kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í Brooklyn. Fyrir bardagann hafði Hardy unnið alla þrjá bardaga sína með rothöggi á undir mínútu.

Crowder gerði vel að komast hjá þungum höggum Hardy í 1. lotu og náði meira að segja fellu. Í 2. lotu veitti Hardy hnéspark í höfuð Crowder á meðan Crowder var með hnéð í gólfinu. Það er ólöglegt og var Hardy dæmdur úr leik. Hnéð smellhitti og var Crowder ófær um að halda áfram.

Hardy viðurkenndi mistök sín á blaðamannafundinum eftir bardagann. „Hann var að standa upp, þetta var reynsluleysi og slæm tímasetning hjá mér. Ég var að reyna að tímasetja hnéð eins og ég sá Donald Cerrone gera, eins og ég hef séð svo marga gera og hélt að það væri það rétta í stöðunni á þeim tíma. En það var ekki svo. Ég klúðraði þessu,“ sagði Hardy.

Hardy er núna 3-1 sem atvinnumaður í MMA en mun fá fleiri tækifæri í UFC að sögn Dana White. Á sama tíma fékk Crowder sinn fyrsta sigur í UFC.

Hardy sagði að hann hefði valdið liðsfélögum og þjálfurum sínum vonbrigðum. „Þetta er ömurlegt fyrir Allen Crowder. Ég tek fulla ábyrgð á þessu. Þetta er ekki eitthvað sem ég gerði viljandi. Allir sem þekkja mig vita það, svona myndi ég ekki gera viljandi.“

Baulað var á Hardy er hann gekk í búrið og fögnuðu áhorfendur þegar Hardy var dæmdur úr leik.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.