Gunnar Nelson er dottinn út af styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Gunnar hefur verið í 14.-15. sæti á undanförnum vikum en er nú dottinn alfarið af listanum.
Hector Lombard hefur lokið eins árs keppnisbanni sínu og er kominn aftur á styrkleikalistann. Lombard var mjög ofarlega á listanum áður en hann féll á lyfjaprófi í janúar 2014. Lombard sigraði síðast Josh Burkman í janúar 2014 og þykir þetta kannski dálítið skrítið hann komist aftur á listann þrátt fyrir að hafa ekki keppt eftir að banninu lauk.
Lombard og Albert Tumenov skipa báðir 14. sæti listans og er því enginn í 15. sæti eins og sjá má hér.
Gunnar hefur verið á topp 15 listanum síðan hann sigraði Omari Akhmedov í mars 2014. Gunnar var í 11. sæti áður en hann tapaði fyrir Demian Maia en eftir tapið féll hann niður í 14. sæti. Gunnar er ekki kominn með næsta bardaga og mun að öllum líkindum komast aftur á topp 15 með sigri í næsta bardaga.
Styrkleikalistinn er samansettur af fjölmiðlamönnum og kemur nýr listi u.þ.b. 36 tímum eftir hvern viðburð UFC. Næsta UFC bardagakvöld er á laugardaginn og gæti Gunnar þess vegna komist aftur á listann þá, þrátt fyrir að hvorki Tumenov né Lombard keppi um helgina.