Gunnar Nelson vigtaði sig inn fyrr í dag fyrir bardagann gegn Kevin Holland sem fer fram á morgun í The O2 Arena í London. Þyngdarniðurskurðurinn hefur gengið vel hjá Gunnari sem vigtaði sig inn 170 pund og andstæðingur hans, Kevin Holland, náði einnig vigt og vigtaðist inn 171 pund. Þetta eina pund sem Kevin Holland fer yfir er þó innan leyfilegra skekkjumarka.
Gunnar hefur ekki átt í miklum erfiðleikum með að ná veltivigtartakmarkinu og hafa margir sagt að hann gæti auðveldlega fært sig niður í léttvigtina en Gunnar hefur alla tíð verið á móti því og líður best á sínum stað í 170 punda flokknum. Allir bardagamenn morgundagsins náðu vigt og ekkert enn komið upp sem gæti stefnt einhverri viðureigninni í hættu en mikið hefur þó verið rætt um mögulega Staph-sýkingu Leon Edwards eftir að myndir af honum og því fóru í dreifingu á internetinu nýlega.
Íslendingar flykkjast nú að London í massavís til að fylgjast með sínum manni en það óheppnisatvik átti sér stað í morgun að flugi til London Heathrow frá Keflavík var aflýst og voru ansi margir á leiðinni út með því flugi og því einhver óvissa í gangi enn sem komið er.
Bardaginn verður að sjálfsögðu sýndur í Mini Garðinum, heimavelli bardagaíþrótta, fyrir þá sem komast ekki út og hefst main card kl. 20:00 og ætti Gunnar að vera stíga inn í búr sirka kl. 21:30.
Stuðlarnir benda til þess að Gunnar sé sigurstranglegri aðilinn á morgun með 1.79 í stuðul á Coolbet á meðan stuðilinn á Kevin Holland er 2.10. Veðbankarnir telja ögn líklegra að Gunnar vinni með uppgjafartaki en stuðillinn á því er 3.15 en 4.00 á sigri á dómaraákvörðun. Stuðullinn fyrir rothögg er 11.0 en Gunnar hefur aldrei sigrað á rothöggi áður og reynir iðulega að ná uppgjafartakinu sem er honum eðlislegra.


