Gunnar Nelson mætir Takashi Sato á UFC bardagakvöldinu í London á laugardaginn. Gunnar er spenntur fyrir því að mæta í búrið eftir langa fjarveru og býst við að bardaginn endi í gólfinu.
Gunnar Nelson hefur ekki barist síðan í september 2019 þegar hann tapaði fyrir Gilbert Burns. Hann hefur þó ekki setið á auðum höndum og mun koma breyttur bardagamaður í búrið á laugardaginn.
„Maður hefur haft tíma til að taka tæknir og stöður sem maður var kannski ekki eins góður í og lyfta þeim upp á næsta plan. Fengið fínan tíma til að vinna í veikleikunum. Síðan hefur maður verið að þjálfa mikið og áttað sig betur á tækninni. Það hefur hjálpað mér og svo vonandi liðinu sem ég er að þjálfa. Ég er mjög spenntur að fara inn á laugardaginn. Mér finnst ég hafa breyst sem fighter,“ segir Gunnar.
Takashi Sato kemur inn með rúmlega tveggja vikna fyrirvara en upphaflega átti Gunnar að mæta Claudio Silva áður en Silva meiddist. Sato hefur sjálfur ekki barist síðan í nóvember 2020 og er því spurning hvort hann komi til leiks með ný vopn sem ekki hafa sést áður.
„Það getur vel verið að hann hafi bætt sig mikið, vitum ekkert um það, vitum bara það sem við höfum séð. Það kemur bara í ljós.“
Gunnar býst þó ekki við að vera ryðgaður þegar kemur að stóru stundinni á laugardaginn þrátt fyrir fjarveruna. „Þetta er einstaklingsbundið. Getur örugglega búið til ring rust ef þú ert staðfastur á að það sé til. Ég er ekkert búinn að gleyma því hvernig það er að vera í búrinu. Hef engar áhyggjur af því.“
Gunnar telur að þeim muni lenda aðeins saman standandi en muni á endanum fara í gólfið. „Finnst líklegt að það verði smá scrap uppi og við endum niðri. Mun reyna að festa hann þar og mýkja hann vel til. Finnst líklegt að þetta endi með submissioni.“
Viðtalið við Gunnar má sjá hér að neðan en þar talar hann einnig um nýja samninginn, júdó bakgrunn Sato og fleira.
Bardaginn verður í beinni á Viaplay og hefst bardagakvöldið kl. 20:00 á íslenskum tíma.