Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaLeikgreining: Gunnar Nelson vs. Takashi Sato

Leikgreining: Gunnar Nelson vs. Takashi Sato

Á laugardaginn stígur Gunnar Nelson aftur inn í búrið eftir rúma tveggja ára fjarveru. Hann tekst á við Takashi Sato sem mun reyna að skemma endurkomu íslenska bardagakappans. Báðir hafa verið frá í meira en ár og verður því spennandi að sjá hvernig þeir hafa bætt sig á þeim tíma.

Gunnar Nelson er færasti bardagamaður sem þjóðin hefur getið af sér, enn sem komið er að minnasta kosti. Gunni er þekktastur fyrir getu sína í gólfinu en hann hefur einnig öflug vopn standandi og góðar fellur sem hann notar til að koma bardaganum í gólfið.

Standandi hefur Gunni góð spörk, hann notar almennt aftari fótinn til að sparka í skrokk og höfuð en með fremri fæti notar hann oft hliðarspark í skrokkinn. Helsta vopnið hans er þó að stökkva inn með beina aftari eða fremri krók og læsa þaðan höndunum um bak andstæðingsins í svokölluðu „body lock“ (sjá mynd 1).

Mynd 1. a)&b) Gunni stekkur inn með beina hægri sem hann notar til að loka fjarlægðinni og c)&d) sækja í „body lock“.

Gunnar hefur góðar fellur úr „body lock“ stöðunni þar sem hann skiptist á að taka andstæðinginn úr jafnvægi í eina átt og síðan hina (sjá mynd 2) en ef andstæðingurinn nær að halda sér standandi ýtir Gunni honum upp að búrinu og sækir þaðan fellu í lappirnar.

Mynd 2. a)&b)&c) Gunni notar „body lock“ til að snúa sér frá búrinu og kasta Edwards yfir vinstra lærið á sér. Edwards notar hendurnar til að halda jafnvægi þannig að d) Gunni heldur áfram að ýta honum í sömu átt. e)&f) Gunni stígur út fyrir Edwards með vinstri fætinum og dregur Edwards til baka yfir vinstri fótinn, þangað sem Edwards hefur ekkert jafnvægi. g) Gunni endar því ofan á og heldur „body lock“ stöðunni í gólfinu.

Þegar komið er í gólfið er Gunnar snöggur að koma sér fram hjá fótum andstæðingsins og yfir í „mount“ stöðuna. Þar lætur hann höggin dynja þar til andstæðingurinn snýr sér við og Gunni getur sótt henginguna. Sumir andstæðingar snúa sér við um leið og þeir lenda í jörðinni til að reyna að standa upp og stekkur Gunni þá beint á bakið á þeim. Ef andstæðingurinn verst hengingunni með höndunum kýlir Gunni til að skapa opnun fyrir henginguna (sjá mynd 3).

Mynd 3. a)&b) Gunni notar höggin til að koma hendinni um höku Tumenov. c)&d) Þegar Gunni er kominn með grip um háls Tumenov heldur hann áfram að nota högg til að draga athygli Tumenov frá hengingunni og kemur þannig höndunum í rétta stöðu til að klára henginguna.

Takashi Sato hefur leiftur snögga stungu og beina vinstri standandi. Hann er léttur á fæti og berst með víða fótastöðu, sem er oft tengt við karate, svipað og Gunni. Þrátt fyrir að vera ekki með breitt vopnabúr er Sato stórhættulegur með vinstri og hefur klárað báða sigra sína í UFC eftir að hafa slegið andstæðinginn niður með beinni vinstri.

Sato er svart belti í júdó og því ekki auðvelt að ná honum niður auk þess sem hann getur náð eigin fellu með kasti. Hann hefur þó þann ósið að snúa sér við og gefa á sér bakið til að verjast fellum og gæti Gunni hæglega nýtt sér það og stokkið á bakið á Sato (sjá mynd 4).

Mynd 4. a)&b) Muhammad skýtur inn með „double leg“ og Sato bregst við með því að c)&d) snúa sér frá og e) breyta fótastöðu sinni til að f) gefa alveg á sér bakið standandi.

Í gólfinu hefur Sato ekki sýnt mikið af bakinu. Hann snýr sér oft við og gefur á sér bakið í gólfinu, en í síðasta bardaga sínum sýndi Sato framfarir þar sem hann náði að koma sér úr bakstöðu sem hann hafði gefið. Það fór þó ekki betur en svo að hann var hengdur í „mount“ stöðunni í staðinn. Sato æfir þó hjá góðu liði, Sanford MMA, og gæti því hæglega hafa bætt sig mikið á þessu rúma ári sem hann hefur verið frá.

Líklegt útspil bardagans

Gunni mun líklega byrja í rétthentri stöðu en Sato örvhentri. Báðir vilja pressa andstæðing sinn upp við búrið og mun Sato líklega nota stunguna til að reyna að ná stjórn á miðjunni en Gunni mun nota felluógnina til að stjórna miðjunni. Líklega mun Gunni nota nokkur spörk fyrir utan til að halda höndum Sato uppteknum og stökkva síðan inn með beina hægri.

Þaðan mun Gunni reyna að ná „body lock“ stöðunni. Sato mun líklega ógna köstum úr þeirri stöðu en Gunni mun reyna að pressa hann upp við búrið. Upp við búrið er hvorugur mikið að nota þung högg eða hné, og verður það því líklega mest stöðubarátta þar sem Gunni reynir að halda pressunni og sækja í lappirnar á Sato en Sato reynir að komast af búrinu og úr „clinchinu“. Ef Sato nær Gunna niður með kasti mun hann líklega reyna að pressa Gunna upp við búrið og lenda þungum höggum í gólfinu.

Ef Gunni nær Sato niður mun Sato líklega reyna að snúa sér við til að komast hratt upp aftur og ætti Gunni þá að ná á honum bakinu. Þar gæti verið að Sato snúi sér aftur við til að gefa ekki henginguna og reyni að grípa um mittið á Gunna og halda sér þar til lotan endar. Gunni mun líklega reyna að halda stöðunni og vinna af mikilli þolinmæði, nota einstaka olnboga og bíða eftir að geta stokkið á bakið og klárað bardagann með hengingu.

Íslendingar hafa beðið lengi eftir að sjá Gunnar Nelson snúa aftur í búrið og verður loks að því nú á laugardaginn. Þessu vill enginn missa af.

spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular