Eins og áður hefur komið fram er Gunnar Nelson meiddur og getur ekki barist á bardagakvöldinu í Belfast í nóvember. Gunnar sendi frá sér yfirlýsingu fyrir skömmu þar sem hann kvaðst vera afar leiður yfir meiðslunum.
Gunnar átti að mæta Dong Hyun Kim í aðalbardaganum í Belfast þann 19. nóvember. Á föstudaginn greindi Ariel Helwani frá því að Gunnar væri meiddur og gæti ekki barist í Belfast.
„Ég hlakkaði mikið til að berjast aftur í Írlandi en það er ekki að gerast út af heimskulegum ökklameiðslum sem áttu sér stað á opnu æfingunni þegar miðasalan hófst,“ segir Gunnar meðal annars í yfirlýsingunni. Gunnar bendir í póstinum á myndband sem sýnir atvikið. Myndband af æfingunni má sjá hér en meiðslin áttu sér stað eftir u.þ.b. 1:15 hér að neðan:
https://www.youtube.com/watch?v=Ye4yzUGh6DM
Gunnar reyndi að halda áfram að æfa eftir meiðslin en ökklinn var ekki að lagast eins og vonir stóðu til. „Ég gat ekki sett neinn þunga í fótinn og óttaðist að ég þyrfti að hætta við bardagann. 10 dögum síðar gat ég gengið eðlilega og taldi ég að bardaginn gæti farið fram. Í nokkrar vikur gerði ég allt sem ég gat til að verða betri svo ég gæti haldið áfram að æfa venjulega. Ég gat þó aldrei skoppað, farið inn og út eða glímt. Ég gerði það sem ég gat eins og að synda, róa og ýmislegt fleira og taldi að ég myndi lagast.“
„Fyrir viku síðan vorum ég og þjálfararnir sammála um að þetta tæki lengri tíma að jafna sig og að ég gæti ekki barist á einum ökkla og án þess að æfa bardagaíþróttir. Mér þykir þetta afar leitt.“
„Ég mun snúa fljótt aftur, betri en nokkru sinni fyrr,” sagði Gunnar svo að lokum.
Póstinn á Instagram má sjá í heild sinni hér að neðan: