Eins og alþjóð er kunnugt er Gunnar Nelson kominn með bardaga innan UFC bardagasamtakanna gegn engum öðrum en Kevin Holland en bardaginn mun fara fram í London þann 22. mars næstkomandi. Æfingarbúðir fyrir bardagann eru byrjaðar og er Gunnar kominn til Zagreb í Króatíu, MMA Fréttir slógu á þráðinn til Gunnars og tóku stöðuna á því hvernig æfingarbúðirnar færu af stað.
Þegar MMA Fréttir heyrðu í Gunna var hann staddur í Zadar þar sem hann var í horninu hjá Luca Ceranja en hann barðist í Fight Nation Championship um liðna helgi. Gunni var annars brattur og kvaðst vera mjög spenntur fyrir bardaganum gegn Holland en hann er að æfa í American Top Team Europe í Zagreb og ætlar að æfa þar fram að bardaga.
„Ég var ekki búin að ákveða hvað ég yrði lengi hérna, ég keypti one way ticket og svo fílaði ég mig svo vel hérna og ákvað eiginlega strax að vera hérna fram að bardaganum. Ég kom hingað til þess að vinna með Luca Jelcic sem var striking-þjálfarinn í Mjölni en svo eru hérna mjög flottir partnerar og þjálfarar sem henta vel til þess að undirbúa fyrir þennan bardaga.“
Gunnar Nelson
Gunni sagði að það væru kostir við að æfa í Króatíu, veður væri milt, um 10 gráður, sem er ekki ósvipað íslensku sumarveðri og gæfi það aukna möguleika á því að gera þrekæfingar utandyra ef þannig liggur við.
Fréttamaður spurði Gunna þá hvort hann væri búinn að vera duglegur við styrktaræfingar eða mataræði þar sem fréttamanni þótti hann líta út fyrir að vera í rosalegu formi
„Ég er búin að vera að halda mér heitum alveg frá seinni hluta síðasta árs út af því að ég var að leitast eftir einhverju hnoði í desember sem varð ekkert úr þannig já já, ég er búin að vera að halda hjólinu á snúning og hef verið að æfa þokkalega þétt og er núna að picka up pace-ið fyrir bardagann. Ég hef ekkert efni á því að æfa alltaf eins og núna enda 36 ára gamall, en ég er búinn að vera á ráslínunum fyrir camp og var fljótur að finna að ég var ready.“
Gunnar Nelson
Fréttamaður spurði þá hvort það væri rétt skilið að Gunni væri heill og ómeiddur.
“Ég er hundrað prósent heill eða eins nálægt því og 36 ára gamall maður í þessu sporti getur verið.”
Gunnar Nelson
Gunnar var spurður út í mótherjann sinn, Kevin Holland, og hvort Gunnar sæi fyrir sér að geta nýtt sér Karate-stíl sinn þar sem Holland hafi lent í vandræðum á móti bardagamönnum sem berjast í þeim stíl, til að mynda Stephen Thompson og nú síðast Michael Venom Page.
„Ég ætla að nota minn stíl og þessi hraði stíll á fótunum hann kemur sér iðulega vel og mun vonandi gera það í mars og það er búið að sýna það áður að það virkar ágætlega á móti honum. Það verður samt að líta til þess að til dæmis Michael Venom Page er mikið stærri en ég, hættulegri og lengri. Það þýðir ekki að horfa nákvmælega á það sem hann gerir og ætla að gera það sama, ég þarf að gera þetta á minn hátt og er það sem við erum að setja upp og vinna með núna.“
Gunnar Nelson
Gunnar sagði það heldur líklegra en ekki að bardaginn færi í gólfið á einhverjum tímapunkti í bardaganum.
Fréttamaður spurði hvort Gunni sæi fyrir sér að Holland, sem er með svart belti í Brazilian Jui Jitsu, gæti haft svör við hans leik í glímunni og bætti þá við hvort það væri mikill munur á glímu svartbeltinga eftir því hvar þeir æfa og þá hvaðan þeir fá svarta beltið sitt.
„Það er svolítið um svoleiðis, það eru hlutir sem hann gerir mjög vel og það má orða það þannig að hann sé hættulegri en hann er góður. Það eru ákveðnir hlutir sem þarf að varast en hann er kannski ekki fundimental-tæknin sem hann er neitt sérstaklega góður í, en hann er hættulegur á öllum stöðum, maður er ekkert save þó að hann sé á botninum, hann slær fast þaðan og hefur meira að segja rotað mann þegar hann lá á bakinu, það þarf að passa sig á því, það væri klúður.“
Gunnar Nelson
MMA Fréttir þakka Gunna fyrir að taka sér tíma fyrir þetta viðtal og munum við aðsjálfsögðu fylgjast náið með æfingum hjá okkar manni í aðdraganda bardagans gegn Kevin Holland.