Halldór Logi Valsson gerði sér lítið fyrir og sigraði bæði sinn flokk og opna flokkinn á Fenrir Open um síðustu helgi. Við ræddum við hann um frammistöðu hans á Fenrismótinu, framtíðina og fleira.
Halldór Logi hefur verið að gera það gott á BJJ-mótum bæði hér heima og erlendis. Þrátt fyrir sigra hans um síðustu helgi var hann ekki alveg nógu sáttur með eigin frammistöðu. „Ég var nokkuð ósáttur við framistöðu mína í heild sinni. Ég átti auðvitað margar góðar glimur og hefði aldrei getað sigrað svona sterkt mót hefði ég ekki átt ágætan dag. Hins vegar fannst mér ég vera of sloppy og þurfti aðeins of mikið að reiða mig á þyngdina. Ég vil hins vegar alltaf vinna mínar glimur á tækni og sanna að stóru strákarnir geta líka verið teknískir,“ segir Halldór Logi en hann sigraði +95 kg flokkinn.
„En auðvitað hefði ég aldrei farið alla leið ef ég hefði ekki átt góðan dag. Mér fannst ég eiga meira inni, tæknilega séð. Ég er enn að jafna mig eftir meiðsli og get ekki æft jafn mikið og ég gerði áður, en þetta kemur allt.“ Halldór Logi sigraði þrjár glímur í sínum flokki og fimm glímur í opnum flokki.
Þetta var í fyrsta sinn sem Fenrir heldur mót af þessari stærðargráðu en mótið fór fram í Hrafnagilsskóla á Akureyri. Halldór Logi æfir hjá Fenri og var þetta því í fyrsta sinn sem hann keppir á stóru móti á „heimavelli“ ef svo má segja. „Það var frábært að fá að keppa hérna heima! Ótrúlega gaman að svona margir góðir glímumenn skulu hafa lagt sér leið og keppt á móti á Akureyri.“
Halldór Logi ætlaði sér ekki að keppa í fyrstu en snérist hugur þegar hann sá fjöldann sem var á leiðinni. „Ég hef ekkert verið að glíma af krafti vegna hnéaðgerðar sem ég fór í fyrr á árinu. Þegar við sáum hversu margir voru að koma gat maður ekki setið og horft á. Pressann var ekkert meiri þannig séð, bjóst ekkert við stórum hlutum og var lang spenntastur fyrir að sjá unglingana sem ég hef verið að þjálfa keppa. Þeir stóðu sig svo sannarlega fram úr öllum væntingum.“
Halldór hefur æft brasilískt jiu-jitsu í um það bil þrjú ár. Hann varð tvítugur fyrr í vikunni en hann er með fjólubláa beltið í jiu-jitsu og stefnir á svarta beltið. „Framtíðin er enn óljós. Ég stefni á svarta beltið og mig langar að keppa í jiu-jitsu á hæsta stigi. Markmið mitt með þessari íþrótt hefur alltaf verið að vera ánægður. Ef ég kæmist í hóp þeirra bestu yrði ég það svo sannarlega. Annars hef ég unun af því að kenna jiu-jitsu. Mig langar að halda áfram að ferðast og safna reynslu bæði sem keppandi og þjálfari. Svo dreymir mig um að opna einn daginn minn eigin klúbb og væri óskandi ef hann væri undir Fenri.“
Halldór hefur farið í æfinga- og keppnisferðir m.a. til Danmerkur, Englands og New York og setur stefnuna á Evrópumeistaramótið á næsta ári líkt og Anna Soffía.
Halldór hefur tekið einn MMA bardaga áður og útilokar ekki að taka fleiri bardaga í framtíðinni. „Mér finnst ótrulega gaman að slást, sama í hvaða mynd það er. Einnig finnst mér ótrulega gaman að challange-a sjálfan mig og prufa eitthvað nýtt. Ég tók MMA bardaga þegar ég var 16 ára gamall út af eintómri forvitni og það var hrikalega skemmtilegt. Ég held ég geri það pottþétt aftur bráðlega. Ég stefni þó ekki á atvinnumensku þar, bara til að prufa eitthvað nýtt. Mig langar fyrst og fremst að reyna að komast í hóp þeirra bestu í BJJ,“ segir Halldór Logi að lokum.
Við þökkum Halldór kærlega fyrir viðtalið og óskum honum til lukku með árangurinn um helgina.