Hector Lombard hefur nú lokið eins árs keppnisbanni sínu eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Hann snýr aftur í UFC þann 20. mars þegar hann mætir Neil Magny.
Hector Lombard sigraði Josh Burkman þann 3. janúar 2015. Lombard féll hins vegar á lyfjaprófi eftir bardagann og var dæmdur í eins árs keppnisbann. Lombard varð uppvís af notkun á anabólíska steranum desoxymethyltestosterone.
Hinn 37 ára Lombard mun því snúa aftur í Brisbane í Ástralíu og verður bardaginn næstsíðasti bardagi kvöldsins samkvæmt MMA Junkie. Í aðalbardaganum mætast þeir Mark Hunt og Frank Mir. Lombard er fæddur í Kúbu en með ástralskan ríkisborgararétt og afar vinsæll í landinu.
Bardaginn gegn Neil Magny verður mikilvægur fyrir veltivigtina. Lombard var hátt á styrkleikalista UFC áður en hann féll á lyfjaprófinu og Magny er í því áttunda. Magny hefur verið á góðu skriði undanfarið og sigrað níu af síðustu tíu bardögum sínum. Síðast sáum við Magny sigra Kelvin Gastelum í nóvember.