spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHelgi Rafn: Björn Lúkas mjög góður nemandi alveg frá fyrsta degi

Helgi Rafn: Björn Lúkas mjög góður nemandi alveg frá fyrsta degi

Björn Lúkas Haraldsson náði frábærum árangri á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA á dögunum. Fáir þekkja Björn Lúkas jafn vel og Helgi Rafn Guðmundsson, taekwondo þjálfari í Keflavík.

Björn Lúkas er núna 6-1 sem áhugamaður í MMA en hann tók sinn fyrsta MMA bardaga í vor. Allir sex sigrarnir hafa endað í 1. lotu og en úrslitabardaganum tapaði hann eftir dómaraákvörðun.

Áður en Björn Lúkas tók skrefið í MMA hafði hann lengi keppt í taekwondo, júdó og brasilísku jiu-jitsu. Björn Lúkas ólst upp í Grindavík og æfði hann lengi vel hjá Helga Rafni.

„Ég kynntist Birni Lúkasi þegar hann byrjaði að æfa taekwondo hjá Grindavík í kringum 2006-2007. Konan mín var að þjálfa þar og ég kom stundum með eða þjálfaði fyrir hana og hitti hann þar. Svo fór Lúkas snemma að mæta á mótin, beltapróf og æfingar hjá Keflavík þannig að ég kynntist honum enn betur þannig,“ segir Helgi Rafn.

Helgi Rafn.

Björn Lúkas er bæði svart belti í júdó og taekwondo og þá er hann með fjólubláa beltið í brasilísku jiu-jitsu. Þegar Helgi Rafn kynnist Birni Lúkasi var sá síðarnefndi bara 11-12 ára gamall og hafa þeir því þekkst lengi.

„Hann hefur alltaf verið mjög fljótur að tileinka sér nýja hluti. Mjög góður nemandi alveg frá fyrsta degi sem ég hitti hann. Hann langar að læra og hann er mjög duglegur að gera endurtekningar, æfa auka og spyrja spurninga til að bæta sig. Hann hefur alltaf verið þannig. Hann hefur t.a.m. tileinkað sér ákveðnar hefðir í því að hita upp, æfa til að læra, bæta mataræði, skrifa æfingadagbækur og svo mætti lengi telja, allt til þess að geta bætt sig sem íþróttamaður. Ef hann sér að það gæti bætt hann þá gerir hann það.“

Helgi segir að það hafi verið augljóst hvert Björn Lúkas stefndi miðað við áhugann hjá honum.

„Hann minntist á við mig að hann langaði í UFC fyrir um 10 árum síðan. Það var alltaf augljóst hvert hann stefndi og hvernig hann ætlaði að gera það. Hann ætlaði að ná góðum tökum á júdó, taekwondo og brasilísku jiu-jitsu. Eftir að hann náði svarta beltinu í taekwondo þá fór hann að bæta við boxinu fyrir MMA. Hann var mjög ákveðinn og einbeittur í að ná markmiðum sínum í sportinu og gerði það mjög vel og skipulega. Það er stundum erfitt að vera með svona marga bolta á lofti. Hann t.a.m. var á sama tíma í landsliðinu í júdo og taekwondo. Þar vildu landsliðin senda hann á hin og þessi mót sem hann sjálfur hafði ekki áhuga á. Hann var þarna til að bæta færni sína fyrir stóra markmiðið síðar meir, hann var ekki þarna til að komast á stórmót í júdó eða taekwondo.“

Eftir alla keppnisreynsluna sem Björn Lúkas hefur sankað að sér í gegnum árin er hann orðinn frekar rólegur nú þegar hann keppir í MMA. Hann er orðinn ansi sjóaður í því að keppa, maður á mann, og er það nokkuð sem er hreinlega ómetanlegt.

„Ég held að reynslan hafi hjálpað honum gífurlega. Hann þekkir það vel að keppa margar helgar í röð og við marga andstæðinga á hverjum degi. Hann hefur t.d. ósjaldan keppt í einni bardagaíþrótt á laugardegi og annarri á sunnudegi eða jafnvel tveimur íþróttum sama dag. Hann er klárlega búinn að keppa mörg hundruð viðureignir í bardagaíþróttum og það segir alveg sitt. Lúkas þekkir það í þaula að kljást við annan mann í átaksporti.“

„Hann þekkir það líka vel að keppa við sér eldri, reyndari og sterkari menn. Hann keppti t.a.m. á Íslandsmóti fullorðinna í BJJ þegar hann var 14 ára gamall og keppti þá við Gunnar Nelson. Hann þurfti að fá undanþágu til að fá að keppa á fullorðinsmótum BJÍ og líka á BJJ mótum erlendis þegar hann var unglingur. Hann vann t.d. Íslandsmeistaratitil fullorðinna þegar hann keppti á undanþágu 17 ára gamall og vann Evrópumeistara í MMA á flying armbar í úrslitaglímunni, verandi veikur og skreið örmagna á klósettið strax á eftir til að gubba. Svo öflugur er þessi strákur.“

„Hann hefur aldrei sett það fyrir sig að æfa marga tíma á dag. Hann hefur t.d. komið á taekwondo æfingar frá 16-18, æft sig í veikleikum sínum mill 18-19 og tekið svo tveggja tíma BJJ æfingu strax á eftir, fimm tímar þann daginn. Þessi sérstaka blanda af ákveðni, dugnaði, metnaði, ró, námsfýsi, góðmennsku, jákvæðni, hógværð, hæfileikum og skýrri sýn á framtíðina er eitthvað sem ég hef ekki séð áður.“

Helgi Rafn kann margar sögurnar af Birni Lúkasi en að eigin sögn gæti hann haldið endalaust að tala um hann. Ein sagan er ansi lýsandi fyrir Björn sem íþróttamann.

„Eins og ég sagði áður þá hefur Lúkas alltaf verið gífurlega góður að taka leiðbeiningum og tileinka sér nýja hluti. Hann er mjög duglegur að drilla en hann þarf oft ekki að drilla hlutina oft til að geta notað þá gegn andstæðing, hann þekkir líkama sinn það vel. Við höfum glímt mjög oft saman og lengi vel vorum helstu æfingafélagar hvors annars í BJJ. Það þýddi að ég þurfti oft að finna upp á nýjum leiðum til að sækja á hann og koma honum á óvart. Við vorum að glíma fyrir einverju síðan og ég náði honum í calf crush úr turtle. Hann spáði í bragðinu og spurði hvað hann gæti gert. Ég sýndi honum gagnbragð sem hann gæti gert og náð mér í armbar úr stöðunni. Ég sýndi honum bragðið einu sinni,“ en bragðið má sjá hér:

„Viti menn, í næstu glímu þá lentum við ‘óvart’ í sömu stöðu og ég hugsa með mér að ég trúði ekki að hann ætli að láta mig ná honum aftur í sama bragð. En þá var hann tilbúinn með gagnbragðið og náði mér í armlásinn. Ég vissi allan tímann að hann gæti gert þetta en hann náði mér samt. Ég öskraði á hann hvort hann hefði verið að setja mig í gildru allan tímann, hann sagðist ekki hafa gert það með bros á vör.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular