Wednesday, September 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHin taumlausa Tonya Evinger

Hin taumlausa Tonya Evinger

Sunna Rannveig Davíðsdóttir berst sinn annan bardaga í Invicta í kvöld. Aðalbardagi kvöldsins er hins vegar áhugavert endurat sem vert er að fylgjast með.

Þær Tonya Evinger og Yana Kunitskaya mætast í aðalbardaga Invicta FC 22 í kvöld. Þær voru einnig í aðalbardaga kvöldsins í nóvember í fyrra en sá bardagi var dæmdur ógildur.

Kunitskaya sigraði eftir armlás í 1. lotu og var sigurinn gríðarlega óvæntur. Hann var í raun svo óvæntur að Invicta var ekki tilbúið með túlk enda gat hin rússneska Kunitskaya ómögulega svarað spurningum Leslie Smith eftir bardagann enda enginn túlkur í búrinu.

Kunitskaya náði armlás af bakinu eftir að Evinger hafði snemma náð fellu. Evinger reyndi að verjast lásnum með því að standa upp og steig á andlit Kunitskaya. Það er ekki bannað að stíga á andlit andstæðingsins svo lengi sem ekki sé verið að sparka eða stappa á höfðinu. Það gerði Evinger ekki en dómarinn bannaði Evinger að standa á Kunitskaya og sagði henni að færa fótinn. Það gerði hún og tappaði hún út skömmu seinna.

Evinger var ekki sátt með þessi mistök dómarans og óskaði því eftir að bardaginn yrði dæmdur ógildur vegna dómaramistakanna. Það fékk hún í gegn sem kom mörgum á óvart og munu þær því mætast aftur í kvöld.

Þar sem bardaginn var dæmdur ógildur er Evinger enn ríkjandi bantamvigtarmeistari Invicta en fram að bardaganum hafði hún ekki tapað í fimm ár og unnið níu bardaga í röð.

Evinger var framúrskarandi keppandi í ólympískri glímu og ein sú besta í Bandaríkjunum í sínum þyngdarflokki. Það var þó ekki keppt í hennar þyngdarflokki á Ólympíuleikunum 2000 og 2004 og ákvað hún því að segja skilið við glímuna og fara í MMA.

Evinger er afar reynd en hún byrjaði ferilinn árið 2006. Hún mætti Ginu Carano í EliteXC árið 2007 og er bardaginn í kvöld hennar 25. á ferlinum.

Evinger er áhugaverður karakter sem kemur til dyranna eins og hún er klædd. Hún fer ekki leynt með kynhneigð sína opinberlega og á samfélagsmiðlum. Eftir sigur hennar á Colleen Schneider í maí smellti hún einum blautum kossi á spyrilinn Lauru Sanko sem vakti mikla athygli. Skömmu áður hafði Evinger kastað upp í búrinu.

Evinger lætur allt flakka og hefur sagt að hún vilji helst sætar stelpur með stór brjóst sem æfingafélaga. Þá hefur hún sagt að eitt það erfiðasta við það að berjast í MMA sé vigtunin daginn fyrir bardagann og er hún ekki að tala um niðurskurðinn. „Það er erfiðast að reyna að stara ekki á hinar stelpurnar. Hafið þið séð suma af þessum stelpum á brókinni?“ Evinger tekur sjálfa sig ekki of alvarlega og er hennar helsta eftirsjá að segja ekki alltaf það sem hún er að hugsa.

Evinger er orðin 35 ára og hefur sjálf sagt að hún sé „late bloomer“. Henni mistókst að komast í húsið í 18. seríu The Ultimate Fighter þegar hún tapaði fyrir Raquel Pennington í fyrsta þætti. Síðan þá hefur hún sagt að hún hafi engan áhuga á að fara í UFC og er sátt við að vera í Invicta sem bantamvigtarmeistarinn. Það er svo bara spurning hvort hún verði það ennþá eftir bardagann í kvöld gegn Yana Kunitskaya.

Invicta FC 22 verður sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en bein útsending hefst á miðnætti.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular