Frank Mir langar að berjast aftur þegar hann hefur afplánað tveggja ára bannið sitt. Frank Mir féll á lyfjaprófi í mars í fyrra og ætlar að snúa aftur árið 2018.
Frank Mir mætti Mark Hunt í mars í fyrra og tapaði eftir rothögg í 1. lotu. Í apríl kom svo í ljós að Mir hefði fallið á lyfjaprófi USADA. Fyrir hinn 36 ára Frank Mir virtist fátt vera í boði annað en að leggja hanskana á hilluna. Ekki hefur enn verið ákvarðað í máli Mir en hann má búast við því að fá tveggja ára bann.
Frank Mir er þó ekkert á því að hætta. Hann var gestur hjá Submission Radio á dögunum og aðspurður sagðist hann ekki vera hættur í MMA. „Nei mig langar eiginlega bara að keppa meira. Ég er 37 ára og get ennþá æft vel og haldið áfram að læra bardagalistir,“ sagði Mir.
„Ég hef verið að æfa mér til heilsubótar og ef líkaminn getur fylgt huganum eftir er ég ennþá nokkuð hættulegur. Maður þarf bara þessa tengingu. Við erum að sjá íþróttamenn snemma á fimmtugsaldri eins og Mark Hunt sem eru enn að standa sig vel. Í rauninni ætti Dan Henderson að vera millivigtarmeistarinn.“
Mir hefur áhuga á að keppa á glímumótum á meðan hann er í banni en þegar banninu lýkur langar hann að berjast við Brock Lesnar. Kapparnir hafa tvívegis mæst og náð einum sigri hvor.
Mir býst við að snúa aftur í búrið á vormánuðum 2018 þá 38 ára gamall en hér að neðan má hlusta á viðtalið.