spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHinn dásamlegi heimur MMA viðurnefna

Hinn dásamlegi heimur MMA viðurnefna

300px-Chuck_Liddell_vs._Rich_Franklin_UFC_115Ég hef alltaf haft mjög gaman af viðurnefnum, eða gælunöfnum, í bardagaíþróttum. Þau geta þjónað margvíslegum tilgangi, nú eða engum tilgangi. Þau geta verið fyndin, ógnandi, asnaleg og svo framvegis en þau bestu eiga þátt í að móta sögu viðkomandi bardagamanns. Ef maður hugsar um stærstu nöfnin í boxi hugsar maður um Iron Mike Tyson, Sugar Ray Robinson, Felix Tito Trinidad, Prince Naseem Hamed, Roberto Hands of Stone  Duran, Pernell Sweet Pea Whitaker svo einhver séu nefnd.

Ég ætla að fara yfir helstu helstu MMA viðurnefnin, flokka þau gróflega niður og skoða uppruna í einhverjum tilvikum.  Kíkjum á þetta í engri sérstakri röð.

1.       Byggt á orðspori

Það er mjög algengt að viðurnefni sé eitthvað áunnið, þ.e. eitthvað sem viðkomandi gerir oft og vel. Eitt frægast nafnið er The Gracie Hunter Kazushi Sakuraba. Sakuraba hefur sigrað Royler Gracie, Royce Gracie, Renzo Gracie og Ryan Gracie. Allt á tveimur árum, svo nafnið er vel verðskuldað. B.J. The Prodigy Penn fékk nafnið snemma af því að hann var fljótur að læra. Hann fékk svarta beltið í jiu-jitsu aðeins 22 ára og varð heimsmeistari sama ár (2000). Eins með Vitor The Phenom Belfort sem var farinn að rota menn í UFC aðeins tvítugur að aldri. Svipað kannski með Randy The Natural Couture (líka þekktur sem Captain America). Hann var bara náttúrulega góður. George Rush St.Pierre fékk nafnið af því að hann vann fyrstu bardagana sína mjög hratt og virtist alltaf vera að flýta sér.

2.       Réttnefni

Það er algengt að viðurnefni sé lýsandi fyrir annaðhvort persónuleika, bardagastíl, útlit eða líkamsgerð bardagamanna. Demetrious Mighty Mouse Johnson er einfaldlega lítill og öflugur. Rousimar Toquinho (trjástubbur) Palhares er byggður eins og trjástubbur. David Tank Abbot barðist eins og skriðdreki, beint áfram með mikinn kraft. Donald Cowboy Cerrone er alvöru kúreki. Hann á búgarð, nautgripi, hesta og allan pakkann. Antonio Bigfoot Silva lítur út eins og Bigfoot og Sean The Muscle Shark Sherk er með ansi mikla vöðva þó hann líti ekki út eins og hákarl. Mike Quick Swick er með hraðar hendur og Jon Bones Jones var grannur beinaber sláni þegar hann var yngri. Clay The Carpenter Guida vann í alvöru sem trésmiður áður en hann gerði MMA að sínu aðalstarfi. Roy Big Country Nelson vísar í hillbilly útlitið, duh.

3.       Vísar í þjóðerni

Það er nokkuð algengt að nöfnin vísi í uppruna bardagamanna, hvort sem það er land eða borg. Joey The Mexicutioner Beltran er Ameríkani en fjölskylda hans kemur frá Mexíkó og hann er greinilega stoltur af því. Mark The Filipino Wrecking Machine Munoz er dæmi um lýsandi nafn sem segir söguna af uppruna bardagamannsins og eitthvað um bardagastílinn. Svipað með Heath The Texas Crazy Horse Herring og Phil The New York Bad Ass Baroni.  The Korean Zombie Chan Sung Jung kemur augljóslega frá S-Kóreu. Hann fékk nafnið af því að hann berst eins og uppvakningur, getur tekið högg og heldur bara áfram að labba beint áfram. Mirko Cro Cop Filipovic var í lögreglusveit í Króatíu og fékk þaðan nafnið. Brian The All-American Stann er hugsanlega amerískasti (ég veit að það er ekki orð) maður sem uppi hefur verið. Hermaður og allt það. Tito The Huntington Beach Bad Boy Ortiz hljómar alltaf nokkuð vel en Marcus The Irish Hand Grenade Davis er bara kjánalegt. Urijah The California Kid Faber er hinsvegar flott og passar vel við California Love sem er auðvitað lagið hans. Eitt af mínum uppáhalds er hinsvegar Krzysztof The Polish Experiment Soszynski. Það hljómar bara eitthvað svo sjúkt.

4.       Ógnandi

Sum gælunöfn eru eingöngu til staðar til að vekja ótta. Sum virka vel eins og Wanderlei The Axe Murderer Silva, sérstaklega á Pride árunum þegar hann barðist eins og villidýr í hringnum. Önnur eru bara asnaleg eins og Stephan The American Psycho Bonnar (sem vísar líka til þjóðernis). Carlos The Natural Born Killer Condit er svipað en samt miklu betra. Quinton Rampage Jackson var ansi ógnandi þegar hann var upp á sitt besta. Patrick The Predator Cote hefur kannski aldrei verið mjög ógnandi en hann er höggþungur. Ég hef alltaf kunnað að meta nafnið Chris The Crippler Leben. Það er auðvelt að trúa því að hann vilji meiða andstæðing sinn. Ed Short Fuse Herman á sennilega að vera slæmur í skapinu og Jason Mayhem Miller gerir allt vitlaust. James The Sandman Irvin getur slökkt á þér og Ruthless Robbie Lawler svífst einskis. Rowdy Ronda Rousey er ansi villt í skapinu en Tim The Maniac Sylvia á að vera einhverskonar geðsjúklingur sem er reyndar kjaftæði. Keith The Dean of Mean Jardine á svo að vera hertogi illsku eða hvað sem þetta nafn á að þýða. Ken The Worlds Most Dangerous Man Shamrock var að reyna að senda andstæðingum sínum einhver skilaboð. Ég held að þetta nafn sé ekki að hræða neinn í dag. Diego Nightmare Sanchez var ansi ógnandi en svo breytti hann yfir í Dream sem hefur ekki alveg sama áhrifamátt. Karo The Heat Parisyan er gott líka, líkt og Sanchez vissu allir að hann var árásagjarn og stóð undir nafni.

5.       Svalt

Sum af skemmtilegustu nöfnunum eru valin bara upp á kúlið. Þið verið að viðurkenna að Lyoto The Dragon Machida er ansi svalt nafn og Alessio Legionarius Sakara er jafnvel enn flottara. Reyndar fæddist Sakara í Róm og ætti því kannski heima í flokki nr. 3 en það er aukaatriði. Christina Cyborg Santos er eitursvalt, eins með eiginmann hennar Evangalista Cyborg Santos. Eitt flottasta nafnið hlýtur að vera Mauricio Shogun Rua en Shogun þýðir herstjóri í Japan. Antonio Minotauro Rodrigo Nogueira (Big Nog) er líka ferlega flott. Minotauro er goðsagnakennd vera eða maður með nautshöfðuð. Tvíburi hans Antonio Minotouro Nogueira (Little Nog) er með svipað og ruglingslegt nafn sem þýðir í raun það sama en er víst ekki alvöru orð. Josh Warmaster Barnett er (líka þekktur sem The Baby-faced Assassin) er ansi svalt og Jon War Machine Koppenhaver sömuleiðis. Fedor The Last Emperor Emelienko er frekar steikt en þó ekki eins slæmt og Rick The Horror Story. Martin Hitman Kampman fékk nafnið frá blaðamanni og fannst það flott. Chuck The Iceman Liddell er bókstaflega svalt, en goðsögnin fékk viðurnefnið af því að hann var svo rólegur fyrir bardaga. Yushin Thunder Okami……ekki eins flott. Anderson The Spider Silva er hinsvegar ofur svalt en nafnið fékk Silva einu sinni þegar hann var í Spider-Man bol. Annað flott er Takenomi The Fireball Kid Gomi en það toppar ekki landa hans Shinya Tōbikan Jūdan Aoki, það þýðir á ensku The grand master of flying submissions. Ronaldo Jacare Souza er líka mjög flott. Jacare þýðir krókódíll og Souza lifir sig mikið inn í viðurnefnið bæði fyrir og eftir bardaga.

6.       Fyndin og furðuleg

Sum viðurnefnin eru alveg stórfurðuleg eins og Renato Babalu Sobral en nafnið fékk hann þegar hann var 11 ára gamall. Babalu er tegund af tyggjó. Bas El Guapo Rutten þýðir sá myndarlegi. Rutten fékk nafnið af því að hann elskar myndina Three Amigos og ein persóna í henni er köllu El Guapo. Misha Cupcake Tate (áður Takedown) er óvenjulegt en Tate valdi það sjálf sem er mjög sjaldgæft. Ian Uncle Creepy McCall er auðvitað stórfurðulegt en sonur vinar hans kallaði hann það og nafnið festist. Phil Mr. Wonderful Davis er annað mjög skrítið en Mr. Wonderful var nafnið á ketti Davis. Yoshihiro Sexyama Akiyama er ekki þetta týpíska harðjaxla nafn en hann er jú módel líka. Mario Zen machine Sperry þýðir sennilega að Sperry er mjög einbeittur en fyrr má nú vera. Ég hef alltaf haft gaman af nafninu Kim Stun Gun Dong-Hyun en hef aldrei almennilega skilið Jens Lil´ Evil Pulver. Er hann bara lítill og illur? Filthy Tom Lawler er skrítið en mér skilst að hann hafi verið svolítið skítugur á tímabili. Elvis The King of Rock and Rumble Sinosic er skelfilegt en hugsanlega er Matt Meathead Mitrione verra, en bara hugsanlega. Dave Pee-Wee Herman er mjög fyndið, Frank Twinkle Toes Trigg líka. Mér skilst að Trigg hafi notað naglalakk en það er bara eins og að grátbiðja um slæmt viðurnefni. Ron H20Man Waterman er klárlega eitt versta nafnið en Vladimir The Janitor Matyushenko veitir honum samkeppni. Pat HD Barry er frekar skrítið, það stendur víst fyrir hype or die, ekki high def. Kenny Ken-Flo Florian er frekar lélegt og hugmyndasnautt, meira gælunafn en viðurnefni, eins og Hendo og Benson.

Sum viðurnefni virka betur saman með öðrum en í sitthvoru lagi eins og Nick The Promise Ring, Frankie The Answer Edgar og Brandon The Truth Vera. En jæja, þetta er orðið ansi langur listi, hvað er ykkar uppáhalds viðurnefni?

spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular