UFC hefur formlega sett á laggirnar fjaðurvigt kvenna í UFC. Þær Holly Holm og Germaine de Randamie munu berjast um fjaðurvigtartitil kvenna á UFC 208 þann 11. febrúar á meðan Cris ‘Cyborg’ Justino situr á hliðarlínunni.
Þetta kemur verulega á óvart enda eru flestir sammála um að Cyborg sé besta fjaðurvigtarkona heims og hefur verið það í mörg ár. Hún treysti sér hins vegar ekki til að keppa í febrúar þar sem hún er enn að jafna sig eftir erfiðan niðurskurð í 140 pund í september. Cyborg var boðið að berjast um fjaðurvigtartitilinn í febrúar en hafnaði þeim bardögum en sagðist vera tilbúin að berjast aftur í mars.
Allt í einu er UFC að flýta sér að koma fjaðurvigt kvenna af stað eftir að bardagasamtökin voru lengi á þeirri skoðun að ekki væru nægilega margar konur í fjaðurvigt til að búa til nýjan þyngdarflokk. Þetta er í besta falli undarlegt enda enginn vafi á því að Cyborg sé sú besta í fjaðurvigt kvenna í heiminum.
Titilbardaginn fer fram á UFC 208 Barclays Center í Brooklyn í New York. Holly Holm hefur tapað tveimur bardögum í röð síðan hún vann Rondu Rousey á UFC 193 í fyrra. Þetta verður fyrsti bardagi hennar í fjaðurvigt.
Hin hollenska Germaine de Randamie keppti í fjaðurvigt kvenna í Strikeforce en hefur keppt í bantamvigt í UFC þar sem hún er með þrjá sigra og eitt tap. Hún er með mikla reynslu úr sparkboxi og ætti þetta því að verða hörku bardagi.