Í síðasta mánuði birtist frétt New York Times um að Conor McGregor sætir rannsókn vegna nauðgunarmáls á Írlandi. Í greininni er Conor nefndur á nafn í tengslum við málið á meðan írskir fjölmiðlar fjalla um málið í tengslum við „írska íþróttastjörnu.“
Í frétt NY Times segir að Conor hafi verið handtekinn í janúar, yfirheyrður og svo sleppt úr haldi með frekari rannsókn yfirvofandi. Conor hefur ekki verið ákærður í tengslum við málið og er ekki búið að sanna ásakanirnar í hans garð.
Árásin á að hafa átt sér stað í desember en fjallað var fyrst um málið í írskum fjölmiðlum þann 10. desember af The Daily Mail. Blaðið sagði frá nauðgun sem átti sér stað á Beacon Hótelinu í desember og var þá talað um írska íþróttastjörnu sem væri viðloðin málið.
Þar segir blaðið að árásin hafi átt sér stað á hótelinu milli miðnættis og kl. 2, aðfaranótt sunnudagsins 9. desember. Næsta morgun á fórnarlambið að hafa leitað til lögreglunnar og tilkynnt nauðgun. Daginn eftir frétt The Daily Mail birti Independent frétt þess efnis að ásakanir konunnar væru mjög trúverðugar. Blaðið sagði lögregluna vera að rannsaka málið og þegar fengið öryggisupptökur frá hótelinu. Þá hafi tæknideild lögreglunnar rannsakað eina svítu hótelsins. The Irish Daily Mail greindi svo frá því að fórnarlambið hefði verið illa farið og marið. Fórnarlambið var óttaslegið og hikandi við að gefa formlega skýrslu samkvæmt The Irish Independent. Í janúar héldu nokkur blöð því fram að íþróttastjarnan hefði gefið sig fram við lögregluna þar sem hann þurfti að dúsa í fangageymslu yfir nótt en var ekki ákærður.
RTE, írski ríkismiðillinn, er síðan sagður eiga yfir höfði sér 20 milljón evra ákæru frá Data Protection Commission (CTC) Írlands vegna gagnaleka. Þar á minnisblað til RTE frá lörgreglunni að hafa lekið sem nafngreinir Conor í tengslum við rannsókn árásar. Minnisblaðið fór víða á samfélagsmiðlum á Írlandi en þar kemur skýrt fram að minnisblaðið eigi ekki að dreifa í fjölmiðlum. Írskum fjölmiðlum er bannað að nafngreina einstaklinga í málum sem þessum samkvæmt lögum fyrr en búið er að dæma í málinu. Írskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið lengi en aldrei nafngreint Conor. NY Times gerði það hins vegar enda þurfa þeir ekki að vinna undir sömu lögum og á Írlandi.
Hvorki Conor McGregor né lið hans hafa tjáð sig um ásakanirnar. Málið hefur verið umtalað á Írlandi síðan í desember en fjölmiðlar hafa alltaf talað um írska íþróttastjörnu og aldrei nafngreint Conor. Háværar sögusagnir meðal almennings hafa hins vegar verið á flugi á Írlandi. Eins og áður segir hefur ekki verið gefin ákæra á hendur Conor McGregor.
Í ljótu Twitter stríði Conor og Khabib í gær minntist Khabib á þessar ákærur.