Eins og við greindum frá á mánudaginn var UFC selt fyrir 4 milljarða dollara. Þetta er gríðarlega há upphæð en hvaða aðilar standa að kaupunum?
Ekki verða gerðar miklar breytingar á starfsemi UFC á næstu 12 mánuðum. Fertitta bræðurnir seldu 81% hlut sinn í UFC og munu hverfa á brott eftir ákveðið breytingarskeið. Dana White, forseti UFC, heldur áfram sínu hlutverki. Hann seldi þó 9% hlut sinn en fær nýjan hlut í nýja félaginu. White fær því 360 milljónir dollara í sinn hlut og heldur starfi sínu.
WME-IMG leiðir hópinn sem stendur að kaupunum en nokkrir aðilar settu saman þessa 4 milljarða til að kaupa UFC. Kíkjum á hverjir þetta eru.
WME-IMG
William Morris Endeavor-International Marketing Group (WME-IMG) er risastór samsteypa sem varð til eftir að WME keypti IMG á 2,4 milljarða dollara árið 2013. WME var gríðarlega stór umboðsskrifstofa með viðskiptavini á borð við Ben Affleck, Mark Wahlberg, Opruh Winfrey, Justin Timberlake, Drake og Rihönnu.
IMG sá um íþróttaviðburði og umboðsmennsku og er með aðsetur í New York. IMG heldur stóra íþróttaviðburði á borð við PBR (Professional Bull Riders..), tennismót á borð við Wimbledon og sér um umboðsmennsku fyrir íþróttastjörnur eins og Cam Newton (NFL) og Lindsey Vonn (skíði). Saman myndar WME-IMG risastórt fyrirtæki sem sameinar kúnna umboðsskrifstofanna og stóra viðburði.
Ari Emanuel og Patrick Whitesell
Ari Emanuel og Patrick Whitesell eru aðstoðarframkvæmdastjórar (co-CEO) WME-IMG.
Emanuel þekkir til hjá UFC en hann hjálpaði til við samning UFC við FOX sjónvarpsstöðina árið 2011. Hann lagði einnig til hjálparhönd þegar Jon Jones samdi við stór merki á borð við Nike og Gatorade.
Emanuel er afar reyndur umboðsmaður. Árið 2009 leiddi hann, ásamt Patrick Whitesell, umboðsskrifstofu sína í samruna við William Morris Agency til að mynda eina stærstu umboðsskrifstofu heims, WME. Emanuel er fyrirmyndin að persónunni Ari Gold – umboðsmanninum skemmtilega í þáttunum Entourage.
Whitesell var einnig umboðsmaður og er enn með stjörnur eins og Denzel Washington, Ryan Reynolds og Jake Gyllenhaal á sínum snærum. Bæði Emanuel og Whitesell eru sagðir afar harðir í samningum. Ronda Rousey er nú þegar að mála hjá WME-IMG.
Báðir hafa þeir verið ofarlega á lista yfir áhrifamestu mennina í Hollywood og í íþróttum. Það er ljóst að þeir sjá tækifæri á að stækka UFC og hafa síðustu fjárfestingar þeirra verið að ganga vel þrátt fyrir efasemdir í upphafi.
Silver Lake Partners
Silver Lake Partners er framtakssjóður sem fjárfestir í tæknigeiranum. Silver Lake hefur fjárfest í fyrirtækjum á borð við Dell, Go Daddy og WME-IMG. Silver Lake seldi til að mynda Skype til Microsoft á 8,5 milljarða dollara eftir að hafa keypt það á 1,9 milljarða tveimur árum fyrr.
Egon Durban
Egon Durban er framkvæmdastjóri Silver Lake og situr einnig í stjórn WME-IMG. Ef taka þarf stóra ákvörðun í WME-IMG eru það þeir Durban, Whitesell og Emanuel sem standa að henni.
KKR – KOHLBERG KRAVIS ROBERTS
KKR er alþjóðlegur framtakssjóður sem sérhæfir sig í vogunarsjóðum. KKR hafa verið á bakvið risastór kaup áður og eru sagðir reyna að ná einhverju öðru og meiru fram með þessu en að ávaxta fé.
MSD Capital
MSD Capital ber ábyrgð á fjárfestingum Michael S. Dell. Eins og nafnið gefur til kynna er Dell maðurinn á bakvið Dell tölvufyrirtækið. Michael S. Dell er 35. ríkasti maður heims samkvæmt Forbes og er metinn á 19,8 milljarða. MSD hefur áður starfað með Silver Lake framtakssjóðnum.
Heimild: Fox Sports