Thursday, April 18, 2024
HomeErlentHverjir eru á bakvið kaupin á UFC?

Hverjir eru á bakvið kaupin á UFC?

Frank Fertitta, Dana White og Lorenzo Fertitta.
Frank Fertitta, Dana White og Lorenzo Fertitta.

Eins og við greindum frá á mánudaginn var UFC selt fyrir 4 milljarða dollara. Þetta er gríðarlega há upphæð en hvaða aðilar standa að kaupunum?

Ekki verða gerðar miklar breytingar á starfsemi UFC á næstu 12 mánuðum. Fertitta bræðurnir seldu 81% hlut sinn í UFC og munu hverfa á brott eftir ákveðið breytingarskeið. Dana White, forseti UFC, heldur áfram sínu hlutverki. Hann seldi þó 9% hlut sinn en fær nýjan hlut í nýja félaginu. White fær því 360 milljónir dollara í sinn hlut og heldur starfi sínu.

WME-IMG leiðir hópinn sem stendur að kaupunum en nokkrir aðilar settu saman þessa 4 milljarða til að kaupa UFC. Kíkjum á hverjir þetta eru.

WME-IMG

William Morris Endeavor-International Marketing Group (WME-IMG) er risastór samsteypa sem varð til eftir að WME keypti IMG á 2,4 milljarða dollara árið 2013. WME var gríðarlega stór umboðsskrifstofa með viðskiptavini á borð við Ben Affleck, Mark Wahlberg, Opruh Winfrey, Justin Timberlake, Drake og Rihönnu.

IMG sá um íþróttaviðburði og umboðsmennsku og er með aðsetur í New York. IMG heldur stóra íþróttaviðburði á borð við PBR (Professional Bull Riders..), tennismót á borð við Wimbledon og sér um umboðsmennsku fyrir íþróttastjörnur eins og Cam Newton (NFL) og Lindsey Vonn (skíði). Saman myndar WME-IMG risastórt fyrirtæki sem sameinar kúnna umboðsskrifstofanna og stóra viðburði.

Ari Emanuel og Patrick Whitesell.
Ari Emanuel og Patrick Whitesell.

Ari Emanuel og Patrick Whitesell

Ari Emanuel og Patrick Whitesell eru aðstoðarframkvæmdastjórar (co-CEO) WME-IMG.

Emanuel þekkir til hjá UFC en hann hjálpaði til við samning UFC við FOX sjónvarpsstöðina árið 2011. Hann lagði einnig til hjálparhönd þegar Jon Jones samdi við stór merki á borð við Nike og Gatorade.

Emanuel er afar reyndur umboðsmaður. Árið 2009 leiddi hann, ásamt Patrick Whitesell, umboðsskrifstofu sína í samruna við William Morris Agency til að mynda eina stærstu umboðsskrifstofu heims, WME. Emanuel er fyrirmyndin að persónunni Ari Gold – umboðsmanninum skemmtilega í þáttunum Entourage.

Whitesell var einnig umboðsmaður og er enn með stjörnur eins og Denzel Washington, Ryan Reynolds og Jake Gyllenhaal á sínum snærum. Bæði Emanuel og Whitesell eru sagðir afar harðir í samningum. Ronda Rousey er nú þegar að mála hjá WME-IMG.

Báðir hafa þeir verið ofarlega á lista yfir áhrifamestu mennina í Hollywood og í íþróttum. Það er ljóst að þeir sjá tækifæri á að stækka UFC og hafa síðustu fjárfestingar þeirra verið að ganga vel þrátt fyrir efasemdir í upphafi.

Silver Lake Partners

Silver Lake Partners er framtakssjóður sem fjárfestir í tæknigeiranum. Silver Lake hefur fjárfest í fyrirtækjum á borð við Dell, Go Daddy og WME-IMG. Silver Lake seldi til að mynda Skype til Microsoft á 8,5 milljarða dollara eftir að hafa keypt það á 1,9 milljarða tveimur árum fyrr.

Egon Durban

Egon Durban er framkvæmdastjóri Silver Lake og situr einnig í stjórn WME-IMG. Ef taka þarf stóra ákvörðun í WME-IMG eru það þeir Durban, Whitesell og Emanuel sem standa að henni.

KKR – KOHLBERG KRAVIS ROBERTS

KKR er alþjóðlegur framtakssjóður sem sérhæfir sig í vogunarsjóðum. KKR hafa verið á bakvið risastór kaup áður og eru sagðir reyna að ná einhverju öðru og meiru fram með þessu en að ávaxta fé.

MSD Capital

MSD Capital ber ábyrgð á fjárfestingum Michael S. Dell. Eins og nafnið gefur til kynna er Dell maðurinn á bakvið Dell tölvufyrirtækið. Michael S. Dell er 35. ríkasti maður heims samkvæmt Forbes og er metinn á 19,8 milljarða. MSD hefur áður starfað með Silver Lake framtakssjóðnum.

Heimild: Fox Sports

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular