spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHvaða andstæðinga gæti Gunnar fengið í London?

Hvaða andstæðinga gæti Gunnar fengið í London?

UFC leitar nú að mögulegum andstæðingi fyrir Gunnar Nelson á UFC bardagakvöldinu í London. Tíminn er knappur en hér förum við yfir þá andstæðinga sem koma til greina.

Óhætt er að útiloka að Gunnar fái Darren Till í London eins og talið var að yrði að veruleika. Í samtali við Vísi segir Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars, að Till hafi afþakkað bardagann. Verið er því að leita að öðrum andstæðingi fyrir Gunnar.

Gunnar vill helst fá einhvern sem er á topp 15 styrkleikalistanum en sem stendur er Gunnar í 13. sæti listans. Þeir Colby Covington, Robbie Lawler og Kamaru Usman glíma allir við meiðsli þessa stundina og er hægt að útiloka þá. Stephen Thompson og Rafael dos Anjos eru of hátt á listanum og getum við því útilokað þá. Þá má einnig úitloka Demian Maia enda ólíklegt að UFC setji þann bardaga aftur saman. Donald Cerrone, Yancy Medeiros og Carlos Condit eru allir með staðfesta bardaga.

Eftir standa þá þeir Jorge Masvidal, Neil Magny, Darren Till, Santiago Ponzinibbio og Dong Hyun Kim. Till og Ponzinibbio getum við einnig afskrifað enda vilja hvorugir mæta Gunnari núna af ólíkum ástæðum. Jorge Masvidal hefur tapað tveimur í röð og væri hann flottur andstæðingur fyrir Gunnar. Það yrði strembinn bardagi en mjög áhugaverður engu að síður. Dong Hyun Kim hefur ekkert barist síðan í júní í fyrra en ekki er vitað hvort hann sé meiddur eða ekki. Þeir Gunnar og Kim áttu að mætast á UFC bardagakvöldinu í Belfast 2016 en Gunnar neyddist til að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla.

Gunnar Nelson
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Veltivigtin er einn stærsti (ef ekki á stærsti) þyngdarflokkurinn í UFC í dag með 93 bardagamenn. Það er því enginn skortur á mögulegum andstæðingum en spurning hvað er spennandi og hvað er líklegt. Hér röðum við bardagamönnum eftir áhugastigi og hve líklegt það er að bardaginn verði settur saman.

Mest spennandi og líklegast:

Þó það sé eftirsóknarvert að fá einhvern á styrkleikalistanum gætu bardagar gegn þeim sem sitja rétt fyrir utan topp 15 verið spennandi. Brasilíski kúrekinn Alex Oliveira hefur verið á topp listanum en eftir tap gegn Yancy Medeiros í einum besta bardaga síðasta árs er hann dottinn út. Hann var reyndar rotaður í desember og gæti viljað lengri pásu.

Tarec Saffiedine hefur valdið vonbrigðum í UFC eftir að hafa komið inn sem Strikeforce veltivigtarmeistarinn. Hann er 2-4 í UFC og tapað þremur í röð en öll töpin hafa verið gegn topp andstæðingum. Belginn hefur ekkert barist síðan í júní í fyrra og væri hann ágætlega stórt nafn fyrir Gunnar þó hann hafi átt erfitt uppdráttar. Var lengi vel á topplistanum en hefur fallið af listanum.

Ryan LaFlare átti að mæta Gunnari í Dublin árið 2014. Hann meiddist hins vegar og varð ekkert af bardaganum. LaFlare hefur um nokkurt skeið verið á listanum en datt út eftir að hafa verið rotaður af Alex Oliveira síðasta sumar. Hann hefur ekkert barist eftir tapið og gæti verið til í að berjast aftur bráðlega.

Jake Ellenberger er sennilega þekktasta nafnið hérna. Hann var lengi á listanum en hefur átt skelfilegu gengi að fagna undanfarið. Ellenberger er ennþá nokkuð þekkt nafn og virðist alltaf vera til í að berjast. Bara unnið tvo af síðustu sjö bardögum en virðist alltaf vera að leita að rétta bardaganum til að ná góðri endurkomu.

Nokkuð spennandi og ágætlega líklegt

Utan topp 15 eru fleiri flottir bardagamenn sem hafa átt góðu gengi að fagna að undanförnu. Þetta eru kannski ekki þekktustu nöfnin en góðir bardagamenn á ólíkum stöðum ferilsins. Nordine Taleb (6-2 í UFC), Chad Laprise (6-2), Vicente Luque (5-2), Alex Garcia (5-3), Sean Strickland (6-2) og Warlley Alves (5-2) eru allir hungraðir í að ná inn á topp 15 og gætu séð viðureign gegn Gunnari sem tækifæri til þess.

Aðrir sem koma hugsanlega til greina

Ef við skoðum þá sem eftir standa (fyrir utan þá sem eru bara með tvo bardaga eða minna í UFC) þá er þar mikill fjöldi sem kemur til greina. Þar má nefna bardagamenn á borð við Mike Pyle, Erick Silva, Court McGee, Jordan Mein, Bryan Barbarena, Keita Nakamura, Hyun Gyu Lim, Randy Brown, Belal Muhammad, Niko Musoke, Elizeu Zaleski, Nico Price, Dhiego Lima, Abdul Razak Alhassan, Mickey Gall, Alberto Mina, Zak Cummings og Claudio Henrique da Silva. Allir þessir gætu alveg endað gegn Gunnari en eru ólíklegri af mismunandi ástæðum.

Sumir af þessum bardagamönnum gætu verið meiddir eða með bardaga sem verður tilkynntur innan tíðar. Það er því ljóst að UFC hlýtur að geta fundið góðan andstæðing fyrir Gunnar í London.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular