Thursday, April 25, 2024
HomeErlentHvenær hefst ONE: Fists of Fury?

Hvenær hefst ONE: Fists of Fury?

ONE Championship verður með bardagakvöld á föstudaginn í Singapúr. Kvöldið heitir ONE: Fists of Fury.

Bardagakvöldið er það fyrsta í Fists of Fury seríunni en alls verða kvöldin þrjú í þessari seríu. Allir bardagar seríunnar fara fram á föstudaginn en einingis verða bardagarnir á fyrsta hluta kvöldsins í beinni útsendingu í dag. Annar hluti verður sýndur föstudaginn 3. mars og síðasti hlutinn verður svo á dagskrá 19. mars.

Þessi háttur hefur verið á hjá ONE Championship síðan bardagasamtökin byrjuðu aftur að halda viðburði í Covid ástandinu í október á síðasta ári. ONE championship hefur tekist vel til við að halda úrslitum kvöldanna leyndum áður en þau eru sýnd vikunum á eftir.

Á kvöldinu á föstudaginn er aðeins einn MMA bardagi á dagskrá, restin er svo kickbox og Muay Thai bardagar. Gríðarleg eftirvænting er samt sem áður fyrir þessum eina MMA bardaga. Þessi bardagi verður frumraun Victoria Lee, 16 ára stelpu frá Singapúr og Bandaríkjunum. Victoria á ekki langt að sækja sína hæfileika í bardagaíþróttum en systkini hennar eru þekktustu bardagamenn ONE (fyrir utan þá sem hafa komið úr UFC) og eru í rauninni andlit samtakana í Asíu. Þau eru ONE léttvigtarmeistarinn Christian Lee (sem að eigin sögn er besti léttvigtar bardagamaður í heimi) og ONE atómvigtarmeistari kvenna Angela Lee. Angela er jafnframt yngsti keppandinn sem unnið hefur titil í einum af stóru MMA samtökunum aðeins 20 ára aldri.

Faðir þeirra, Ken Lee, er gamall bardagamaður sjálfur en hann er yfirþjálfari og eigandi United MMA á Hawaí í Bandaríkjunum. Börnin hans byrjuðu að æfa bardagaíþróttir í United MMA þegar þau náðu 6 ára aldri. Þar æfa þau undir handleiðslu föður síns í kringum atvinnubardagamenn alla daga.

Ken Lee lætur tvö eldri börnin sín (Angelu og Christian) borga fyrir æfingar sínar hjá United MMA með því að þjálfa yngri systkini sín, þau Victoriu og Adrian. Fjölskyldan gerir því nánast ekkert annað en að æfa, kenna og keppa í bardagaíþróttum alla daga, allt árið um kring. Victoria varð nýlega 16 ára gömul og fagnaði afmælisdegi sínum með því að skrifa undir samning við ONE Championship. Ætla má að Adrian, yngsti bróðirinn, verði kominn með samning við ONE innan fárra ára.

Hér má sjá Lee fjölskylduna samankomna að leggja af stað frá Hawaí til Singapúr fyrir nokkrum dögum síðan.

Victoria Lee hefur lýst því yfir að hún muni sigra andstæðing sinn hina 20 ára Sunisa Srisan (4-1) með uppgjafartaki í fyrstu lotu. Sunisa Srisan er verðugur andstæðingur og eru margar bardagakonur í samtökunum sem eru mun lakari en hún og væru líklega betur til þess fallnar að berjast á móti hinni ungu Victoriu Lee í sínum fyrsta atvinnubardaga.

Fyrsti bardagi dagsins hefst kl. 12:30 í hádeginu á föstudaginn. Kvöldinu er streymt beint á Youtube rás ONE Championship hér fyrir neðan:

Bardagakvöldið (hefst kl. 12:30)

Kickbox fjaðurvigt titilbardagi: Ilias Ennahachi gegn Superlek Kiatmoo
Kickbox fjaðurvigt:  Giorgio Petrosyan gegn Davit Kiria
Kickbox fluguvigt: Rodtang Jitmuangnon gegn Tagir Khalilov
Kickbox bantamvigt: Hiroki Akimoto gegn Zhang Chenglong
Muay Thai strávigt kvenna: Wondergirl Fairtex gegn Jackie Buntan
Atómvigt kvenna: Victoria Lee (0-0) gegn Sunisa Srisen (4-1)

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular