spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHvernig æfðu bardagamenn helgarinnar fyrir UFC 249?

Hvernig æfðu bardagamenn helgarinnar fyrir UFC 249?

UFC 249 fer fram nú á laugardaginn þar sem þeir Tony Ferguson og Justin Gaethje mætast. Nánast allir bardagaklúbbar hafa verið lokaðir í heimsfaraldinum sem hefur gert bardagamönnum erfitt að æfa.

Allir bardagamenn helgarinnar eru búsettir í Bandaríkjunum en bardagakvöldið fer fram í Jacksonville í Flórída. Það hefur reynst erfitt að undirbúa sig fyrir bardagana enda samkomubönn víða og tveggja metra reglan er höfð í hávegum til að minnka smithættu. En hvernig hafa keppendur helgarinnar undirbúið sig á sem bestan hátt fyrir UFC 249?

Tony Ferguson – Costa Mesa, Kaliforníu

Er í rauninni að gera það sama og hann gerir vanalega æfingalega séð. Ferguson æfir með sínum þjálfurum í hálfgerðri einangrun í Big Bear fjöllunum í Kaliforníu. Að hans sögn hafa æfingar hans ekki breyst mikið í heimsfaraldrinum.

Justin Gaethje – Denver, Colorado

Gaethje fékk veltivigtarmeistarann Kamaru Usman og Beneil Dariush til sín en Gaethje er með einkaaðgang að æfingaaðstöðu. Þeir bjuggu allir saman í húsi Gaethje og en Neil Magny hefur heimsótt þá og æft með þeim sem og nokkrir glímumenn. Þjálfari Gaethje, Trevor Wittman, hefur síðan komið og tekið æfingar með Gaethje á púðunum.

Dominick Cruz – San Diego, Kalifornía

Það hefur verið fámennt hjá Cruz í Alliance bardagaklúbbnum í San Diego. Cruz hefur æft með eins fáum og hægt er, 4-6 æfingafélagar, til að minnka líkur á smiti.

Henry Cejudo – Scottsdale, Arizona

Henry Cejudo hefur notið þess að hafa aðstöðuna þar sem hann æfir út af fyrir sig. Þar sé lítil truflun og Cejudo fær góðan vinnufrið. Annars sér Cejudo lítin mun á því að vera í einangrun og vera í æfingabúðum fyrir bardaga.

Francis Ngannou – Xtreme Couture, Las Vegas,

Ngannou hefur æft í Las Vegas og hefur verið mikil áhersla á þol. Ngannou hefur æft með Blagoy Ivanov (þungavigtarmaður í UFC) og verið á púðum hjá þjálfurum sínum í Vegas.

Jeremy Stephens

Stephens hefur æft mikið einn en hefur annars lítið gefið upp um æfingar sínar.

Yorgan De Castro – Massachusetts

De Castro þarf að fara í tvo bardagaklúbba sem eru báðir lokaðir almenningi þessa stundina en þjálfarar hans opna aðstöðuna bara fyrir hann. Þar fær hann einkatíma með þjálfurum sínum.

Greg Hardy – American Top Team, Flórída

Erfiðar æfingabúðir fyrir Hardy. Hann býr í Dallas og hefur því verið að keyra mikið á milli í stað þess að fljúga. Hardy er ekki með eins marga þjálfara núna og vanalega. Auk þess er hann með astma og hefur því verið mjög hræddur um að fá kórónaveiruna.

Michelle Waterson – Jackson/Wink, Albuquerque

Bardagaklúbburinn er lokaður þannig að hún hefur æft heima. Eiginmaður hennar hefur haldið á púðum fyrir hana og svo hefur hún tekið brekkuspretti í nátturunni. Waterson er líka með róðravél, lóð, hjól og sundlaug heima hjá sér svo það vantar ekki upp á þol og styrktaræfingar hjá henni. Waterson hefur síðan sparrað við eiginmann sinn og glímt við hann en hann er ekki bardagamaður sjálfur. Waterson hefur síðan fengið einn þjálfara á dag til sín til að glíma við eða taka púðaæfingu með. Þetta eru þjálfarar á borð við Mike Winkeljohn, Rafael Freitas jiu-jitsu þjálfari og Joey Villasenor MMA þjálfari.

Carla Esparza – Kalifornía

Esparza býr með nokkrum bardagamönnum og konum og hefur æft með þeim. Það hefur verið erfitt fyrir hana að nálgast þjálfara sína og er það stærsta áskorunin fyrir þennan bardaga að hennar mati.

Charles Rosa – American Top Team, Flórída

American Top Team, þar sem Rosa æfir, hefur verið opið bara fyrir þá sem eru með bardaga. Rosa má mæta á ákveðnum tíma dags ásamt þjálfurum og nokkrum öðrum keppendum. Þessa stundina eru aldrei fleiri en 2-3 á dýnunum hjá ATT hverju sinni en dýnurnar eru síðan hreinsaðar eftir hvern tíma.

Bryce Mitchell – Arkansas

Hefur haft það gott á bóndabæ sínum í Arkansas. Hefur æft í lokuðum bardagaklúbbi ásamt tveimur þjálfurum og æfingafélaga.

Donald Cerrone, Nýja-Mexíkó

Donald Cerrone er auðvitað með sinn eiginn búgarð með öllu sem hann þarf til að undirbúa sig fyrir bardaga. Þjálfarinn John Wood keyrði frá Las Vegas til að aðstoða Cerrone og svo er hann með tvo æfingafélaga sem búa á búgarðinum allt árið. Cerrone telur að hann þurfi ekki að sparra eins mikið og áður þar sem hann sé með svo mikla reynslu. Þess í stað einblínir hann á að vera með gott þol, kýla í púða og skerpa á glímutækninni.

Ronaldo ‘Jacare’ Souza – Orlando, Flórída

Eiginkona Jacare er með Crossfit aðstöðu í bílskúrnum og hefur Jacare notað þá aðstöðu. Þjálfari og æfingafélagi hafa búið hjá honum um tíma og æft með honum í bílskúrnum. Þá hafa fjórir æfingafélagar litið við í bílskúrinn hjá honum og tekið einstaka æfingar með honum. Jacare hefur líka tekið í lóð konunnar og notað þau til að bæta þrek og styrk.

Calvin Kattar – Boston

Calvin Kattar er vanur því að ferðast mikið fyrir bardaga sína í fjögur mismunandi fylki í grendinni. Í þetta sinn hefur hann látið einn æfingafélaga duga og tekur æfingar þar sem mögulegt er.

Uriah Hall – Fortis MMA, Dallas

Uriah Hall ákvað að flytja inn í bardagaklúbbinn sem hann æfir í. Hall sefur á loftdýnu hjá Fortis MMA og glímir við glímuþjálfara sinn á hverjum degi. Þess á milli tekur hann æfingar á púðunum.

Ryan Spann – Dallas

Ryan Spann æfir með UFC bardagamönnunum Alonzo Menifield og Geoff Neal í lokuðum bardagaklúbbi. Fámennari æfingar en planið nokkurn veginn eins og vanalega.

Sam Alvey, Kalifornía

Sam Alvey hefur ekki verið í vandræðum í sínum undirbúningi. Hann hefur farið í nokkra mismunandi bardagaklúbba og haft fullt af æfingafélögum. Alvey hefur áður sagt að hann hafi engar áhyggjur af kórónaveirunni og að viðbrögðin við veirunni séu yfirdrifin. Eini munurinn sem Alvey finnur fyrir er sá að hann þarf ekki að kenna krakkatíma lengur og hefur því meiri tíma í æfingar.

Anthony Pettis – Roufus Sport, Milwaukee

Anthony Pettis hefur að mestu æft með bróður sínum, Sergio Pettis, en valdi nokkra æfingafélaga með sér sem henta fyrir þennan bardaga. Flestar æfingar hafa haldist hjá Pettis nema í þetta sinn snúast allar æfingar um hann. Pettis segir að það sé að virka vel fyrir sig og að þetta séu frábærar æfingabúðir. Pettis er með nokkur fyrirtæki en hann þarf lítið að sinna þeim þessa dagana þar sem allt er lokað og kemur það honum til góðs.

Fabricio Werdum – Los Angeles, Kalifornía

Werdum hefur tekið æfingar í gegnum Skype eða Zoom við þjálfara sinn Rafael Cordeiro og nær að hitta hann einstaka sinnum. Werdum er með einn æfingafélaga sem býr hjá honum í tvo daga í senn. Þegar hann er ekki við notar Werdum bróður sinn. Werdum hleypur mikið og hugar vel að þolinu en getur ekki tekið neinar lyftingar.

Vicente Luque – Brasilía og Hard Knocks 365, Flórída

Luque er með nokkra æfingafélaga sem skiptast á að æfa með honum – einn í einu. Bardagaklúbburinn er lokaður og fær enginn að koma inn nema Luque og æfingafélaginn hverju sinni. Luque er síðan í góðu sambandi við þjálfara sína og telur sig vera 80-90% tilbúinn í bardagann. Luque hefur lagt mikla áherslu á þolið með miklum hlaupum og er í sambandi við þjálfara sína í gegnum Facetime.

Heimildir:
ESPN
Sherdog
UFC Embedded

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular