Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaHvers vegna er Brandon Vera enn í UFC?

Hvers vegna er Brandon Vera enn í UFC?

Brandon Vera (mynd eftir Lee Brimelow)

Hvers vegna er Brandon Vera enn í UFC? Brandon Vera var eitt sinn einn mest spennandi bardagamaður í UFC. Hann kom inn í UFC og sigraði fyrstu fjóra bardaga sína (kláraði alla andstæðinga sína í þokkabót) og leit hrikalega vel út! Vera var með stórar yfirlýsingar og lýsti því yfir að hann ætlaði að verða fyrsti maðurinn til að vera UFC meistari í bæði léttþungavigt og þungavigt á sama tíma! Í dag hefur hann ekki enn fengið titilbardaga í hvorugum þyngdarflokknum.

Það er hreinlega ótrúlegt að Brandon Vera skuli enn vera með starf innan UFC. Maðurinn hefur aðeins unnið einn bardaga af síðustu sex! Eini sigur hans í þessum bardögum var umdeildur sigur á Eliot Marshall en margir voru ósammála dómaraákvörðuninni. Hann hefur tapað 5 af þessum bardögum en eitt tapið var dæmt ógilt þar sem andstæðingur hans, Thiago Silva, féll á lyfjaprófi. UFC bardagaskorið hans síðan hann sigraði Frank Mir er 4-7 og einn bardagi ógildur. Í hvert einasta sinn sem Vera mætir segist hann hafa fundið eldmóðinn að nýju og hann hafi breytt æfingunum þannig að hann hafi aldrei verið betri…en svo tapar hann!

Vera barðist síðast gegn Ben Rothwell í þungavigtinni. Vera var rotaður í 3. lotu en eins og Thiago Silva féll Ben Rothwell einnig á lyfjaprófi. Tapið verður ekki gert ógilt út af lyfjaprófinu og er þetta því annað tapið hans í röð. Brandon Vera fékk 70.000 dollara fyrir bardagann gegn Rothwell! Það er í hærri kantinum í UFC og hreinlega ótrúlegt að hann skuli enn halda starfi sínu þegar menn eins og Okami og Fitch hafa verið látnir fara. Kannski fær hann enn eitt tækifærið í viðbót þar sem hann er kominn í þungavigtina en þungavigtin hefur alltaf verið frekar þunnskipuð. Maður sem er með 70.000 dollara (bara fyrir að mæta, ef hann sigrar fær hann aðra 70.000 dollara) og hefur ekki unnið bardaga sannfærandi síðan 2009 ætti í rauninni ekki að vera í UFC. Maðurinn hlítur að vita eitthvað leyndarmál sem Dana White vill ekki að fréttist! Þetta passar engan veginn að hann skuli enn fá að berjast í UFC.

Ég er ekki að óska þess að maðurinn missi vinnuna sína en það er greinilegt að Vera er langt frá því að vera sami bardagamaður og hann var þegar hann mætti fyrst í UFC. Hvað það er sem hefur valdið þessum döpru frammistöðum hjá honum er óvíst en hann ætti að hafa gert mun betur á undanförnum árum. Þegar Jon Jones kom fyrst fram á sjónvarsviðið í UFC og gjörsigraði alla andstæðinga sína óttuðust sumir að hann gæti orðið eins og Vera. Lofað hrikalega góðu en ekki náð að standa undir væntingunum. Sem betur fer náði Jones að standa undir væntingunum og gott betur en það (á metið yfir flestar titilvarnir í 205 punda þyngdarflokknum).

 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

3 COMMENTS

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular