spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHversu margir meistarar hafa endurheimt beltið sitt?

Hversu margir meistarar hafa endurheimt beltið sitt?

Meistarar í UFC koma og fara en samkvæmt sögunni ná fæstir titlinum aftur. Hér skoðum við aðeins hvaða meistarar hafa náð að endurheimta beltið eftir að hafa tapað því.

Robert Whittaker tapaði millivigtartitli sínum á dögunum þegar Israel Adesanya rotaði hann. Whittaker er staðráðinn í að endurheimta beltið en sagan er ekki með honum. Joanna Jedrzejczyk er sömuleiðis ákveðin í að endurheimta strávigtartitilinn sinn en engin kona hefur náð að verða aftur meistari í UFC eftir að hafa tapað beltinu. Skoðum aðeins söguna og þá sem hafa náð beltinu aftur.

Þungavigt

Randy Couture (tvisvar)
Tim Sylvia
Cain Velasquez
Stipe Miocic

Í þungavigtinni hefur reynst erfiðast að halda beltinu. Metið yfir flestar titilvarnir á auðvitað Stipe Miocic með aðeins þrjár titilvarnir sem er nú ekkert sérstaklega mikið í stóra samhenginu. Beltið hefur því farið manna á milli eins og heit kartafla og nokkrum sinnum komið við á sömu stöðum.

Randy Couture vann beltið fyrst í Japan 1997 en var fljótlega sviptur beltinu eftir samningaviðræður hans og UFC sigldu í strand. Hann náði svo aftur beltinu árið 2000 og í þriðja sinn árið 2007 þegar hann sigraði Tim Sylvia.

Tim Sylvia náði einnig beltinu tvisvar en hann tapaði beltinu fyrst eftir fall á lyfjaprófi. Cain Velasquez lét rota sig af Junior dos Santos í sinni fyrstu titilvörn en tókst að endurheimta beltið með því að sigra dos Santos 413 dögum síðar. Stipe Miocic gerði síðan eiginlega það nákvæmlega sama og Cain en hann rotaði Daniel Cormier (sem hafði einmitt rotað hann áður) 407 dögum eftir að hafa tapað beltinu. Nú er spurning hversu lengi Miocic nær að halda beltinu í þetta sinn en þeir Cormier og Miocic mætast aftur á næsta ári.

Að lokum má ekki gleyma að Frank Mir tókst að verða bráðabirgðarmeistari eftir að hafa áður þurft að láta alvöru beltið af hendi vegna meiðsla.

Léttþungavigt

Randy Couture
Jon Jones

Í léttþungavigtinni var Randy Couture aftur á ferðinni. Couture sigraði Tito Ortiz í september 2003 en Couture hafði áður verið bráðabirgðarmeistari í flokknum. Hann tapaði svo beltinu með umdeildum hætti til Vitor Belfort eftir skurð en tókst að endurheimta beltið 203 dögum síðar með sigri á Belfort.

Jon Jones hefur síðan náð að tapa beltinu en bara vegna hegðun hans utan búrsins. Jones er auðvitað taplaus sem meistari en hefur tvisvar verið sviptur titlinum.

Millivigt

Í millivigtinni hefur engum tekist að endurheimta beltið sitt. Anderson Silva reyndi það en tapaði aftur gegn Chris Weidman. Nú er spurning hvort Robert Whittaker geti endurheimt beltið en núverandi meistari, Israel Adesanya, lítur ansi vel út.

Veltivigt

Matt Hughes
Georges St. Pierre

Matt Hughes tapaði veltivigtartitlinum til B.J. Penn árið 2004. Sama ár endurheimti hann beltið með sigri á Georges St. Pierre en beltið var þá laust eftir að Penn hafði yfirgefið UFC.

Georges St. Pierre vann beltið af Matt Hughes árið 2006 en tapaði því mjög óvænt til Matt Serra árið 2007. Sigur Serra er enn þann dag í dag einn sá óvæntasti í sögu UFC en GSP leiðrétti mistökin og endurheimti beltið með sigri á Serra í apríl 2008. GSP hafði áður unnið bráðabirgðarbeltið í fjarveru Serra en sameinaði titlana.

Léttvigt

Aldrei hefur fyrrum meistara í léttvigt tekist að endurheimta beltið. Sean Sherk, B.J. Penn, Frankie Edgar og Benson Henderson fengu allir annan séns eftir að hafa tapað beltinu en töpuðu allir.

Fjaðurvigt

Jose Aldo

Fjaðurvigtin er nánast bara saga Jose Aldo í UFC. Aldo tapaði beltinu til Conor McGregor árið 2015 en varð bráðabirgðarmeistari með sigri á Frankie Edgar árið 2016. Aldo var síðar hækkaður í tign og gerður að alvöru meistara þegar Conor var sviptur en náði aldrei að verja alvöru titilinn aftur.

Dillashaw-Cruz

Bantamvigt

Dominick Cruz
T.J. Dillashaw

Saga Dominick Cruz er nokkuð áhugaverð. Hann var fyrsti bantamvigtarmeistari UFC en var sviptur titlinum vegna meiðsla. Cruz vann titilinn svo aftur með mögnuðum sigri á T.J. Dillashaw í janúar 2016 en tapaði honum svo til Cody Garbrandt. Dillashaw endurheimti svo sjálfur titilinn af Garbrandt en var sviptur titlinum á þessu ári eftir fall á lyfjaprófi.

Fluguvigt

Aðeins tveir menn hafa haldið fluguvigtarbeltinu, þeir Demetrious Johnson og Henry Cejudo, en Johnson yfirgaf UFC eftir að hafa tapað beltinu til Cejudo og hefur því ekki fengið annað tækifæri á fluguvigtartitili UFC.

Kvennaflokkar

Aldrei hefur fyrrum meistara í kvennaflokkunum tekist að vinna beltið aftur. Ronda Rousey, Holly Holm og Joanna Jedrzejczyk hafa allar reynt að endurheimta beltið en án árangurs. Joanna vill nú reyna að fá strávigtarbeltið aftur og mæta nýja meistaranum Wheili Zhang.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular