Tuesday, April 16, 2024
HomeErlentGetur Chris Weidman bjargað ferlinum í nýjum flokki?

Getur Chris Weidman bjargað ferlinum í nýjum flokki?

Chris Weidman berst í kvöld sinn fyrsta bardaga í léttþungavigt. Eftir slæmt gengi undanfarin ár er spurning hvort þessi fyrrum meistari nái fyrra formi í nýjum þyngdarflokki.

Chris Weidman mætir Dominick Reyes á UFC bardagakvöldinu í Boston í kvöld. Bardaginn fer fram í léttþungavigt en Reyes hefur unnið alla fimm bardaga sína í UFC og er ósigraður sem atvinnumaður.

Chris Weidman hefur verið í miklu veseni síðan hann var meistari. Weidman hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum og allt eru það töp eftir rothögg. Nú ætlar hann að reyna að endurlífga ferilinn í léttþungavigt.

Weidman segir að niðurskurðurinn í millivigt hafi aldrei verið auðveldur og nú þegar hann er eldri og aðeins þyngri var þetta rétti tíminn til að fara upp.

Weidman hefur væntanlega séð velgengni Anthony Smith og Thiago Santos í léttþungavigtinni. Báðir voru þeir meðalmenn í millivigtinni en komust í titilbardaga gegn Jon Jones eftir nokkra sigra í nýjum flokki. Weidman langar að mæta Jones og telur sig geta fengið titilbardaga með sannfærandi sigri á Reyes.

Fyrrum andstæðingur Weidman, Luke Rockhold, sýndi hins vegar að það er ekki alltaf ávísun á árangur að fara upp um flokk. Rockhold talaði mikið um að fara upp og mæta Jon Jones (eins og Weidman er að gera núna) en var steinrotaður í frumraun sinni í léttþungavigt af Jan Blachowicz.

Það verður því áhugavert að sjá í kvöld hvort Weidman fari Anthony Smith leiðina eða Luke Rockhold leiðina.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular