Ian McCall átti að mæta Neil Seery á UFC bardagakvöldinu í Belfast annað kvöld. Í morgun reyndist McCall vera veikur og getur hann því ekki barist.
Ian McCall has come down with illness and his #UFCBelfast fight with Neil Seery is off. Seriously.
— Mike Bohn (@MikeBohnMMA) November 18, 2016
Þetta er hálfpartinn fyndið þar sem McCall hefur verið gríðarlega óheppinn á þessu ári. Þann 30. júlí átti McCall að mæta Justin Scoggins á UFC 201. Tveimur dögum fyrir bardagann féll bardaginn hins vegar niður þar sem Scoggins gat ekki náð vigt.
McCall fékk því annan bardaga sem fyrst og átti að mæta Ray Borg á UFC 203 þann 10. september. Þremur dögum fyrir bardagann veiktist Borg og gat UFC ekki fundið annan bardagamann í hans stað.
Nú átti McCall að mæta Íranum Neil Seery og var hann spenntur fyrir bardaganum enda sagði hann að Seery muni aldrei hætta við, meiðast eða ekki ná vigt. Nú er það Ian McCall sem er veikur og getur ekki barist. McCall hefur ekkert barist síðan í janúar 2015 en hann var lengi frá vegna meiðsla.
Þetta átti að vera kveðjubardagi Seery og viðeigandi að síðasti bardagi hans á ferlinum yrði í Belfast. Ekki er vitað hvort hann fái annan andstæðing þó það þyki ólíklegt á þessari stundu.