spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaIgor Vovchanchyn - gleymd goðsögn?

Igor Vovchanchyn – gleymd goðsögn?

Igor Vovchanchyn er nafn sem gleymist oft þegar verið að tala um helstu goðsagnir í sögu MMA. Þessi þybbni Úkraínumaður keppti stærstan hluta ferils síns í þungavigtinni þrátt fyrir að vera aðeins 173 cm á hæð. Hann á gríðarlega marga bardaga að baki en þegar hann lagði hanskana á hilluna hafði hann barist 129 bardaga!

Ferill hans í kickboxi var afar farsæll en þar sigraði hann 61 bardaga og tapaði aðeins tveimur. Það er í raun ekki vitað mikið um þessa bardaga og líklegt að margir af þeim hafi verið án hanska (e. bareknuckle fights). Vovchanchyn var einn af fyrstu kickboxurum til að fara yfir í MMA og sigra glímumenn sannfærandi. Einn slíkur sigur kom gegn Adilson Lima, svart belti í Gracie jiu-jitsu, árið 1995 en þá rotaði hann Lima eftir aðeins 56 sekúndur með því að sparka í höfuð hans á meðan Lima var liggjandi. Renzo Gracie var í horninu hjá Lima og taldi það vera ólöglegt að sparka í höfuðið á liggjandi manni og krafðist þess að þeir myndu berjast aftur strax. Það gerðu þeir en Vovchanchyn nefbraut Lima fljótt og var bardaginn því stöðvaður í annað sinn og Vovchanchyn óumdeilanlegur sigurvegari.

Vovchanchyn var ógnvænlega höggþungur en hann sigraði 29 bardaga með rothöggi. Hér er gott dæmi um kraftinn í höndunum hans er hann rotar Francisco Bueno í Pride árið 1999. Þetta er að mati höfundar eitt minnistæðasta rothöggið úr Pride. Hvernig Bueno liggur hreyfingarlaus og stjarfur á gólfinu er ógnvænlegt.

Þegar best lét sigraði Vovchanchyn 37 bardaga í röð í MMA og kickboxi. Hann er með 55 sigra í MMA og 10 töp en aðeins einu sinni verið rotaður. Vovchanchyn keppti mikið í útsláttarkeppnum sem fóru fram á einu og sama kvöldinu en hans besti árangur er sennilega þegar hann hafnaði í 2. sæti á Pride Grand Prix 2000 þar sem hann tapaði fyrir Mark Coleman.

Vovchanchyn var sagður mikill ólátabelgur þegar hann var í glasi og þekktur fyrir það í þorpinu sem hann bjó í. Ein þjóðsagan segir að þegar Vovchanchyn var fullur var sérstök bjalla í þorpinu sem var hringt til að aðvara þorpsbúa um að Vovchanchyn væri fullur. Í Pride var hann sagður hinn viðkunnalegasti en gjörbreyttist í villt dýr þegar í hringinn var komið.

Í dag rekur hann veitingastað í Úkraínu en heldur sér þó við með því að æfa glímu. Hann var farinn að dala undir lok ferils síns árið 2005 þegar Pride keppnin stóð sem hæst. Það hefði verið gaman að sjá hvernig hann hefði staðið sig ef hann hefði fæðst nokkrum árum seinna og verið á toppnum á sama tíma og þegar Cro Cop og Fedor voru uppi í Pride. Vissulega barðist Vovchanchyn við Cro Cop en aðdáendur hans vilja meina að Vovchanchyn hafi verið farinn að dala á þeim tíma en Cro Cop var eini maðurinn sem náði að rota hann í MMA.

Það hefur oft verið sagt um Vovchanchyn að það sé ógleymanleg upplifun að sjá hann berjast með berum augum, slík voru áhrifin sem þessi maður hafði á áhorfendur. Það er líklega eitt mesta hrós sem hægt er að gefa bardagamanni. Ljúkum þessari grein með skemmtilegri “highlight” klippu frá ferlinum hans.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular