spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaIngþór Örn: Næsti bardagi verður engin endastöð

Ingþór Örn: Næsti bardagi verður engin endastöð

Ingþór Örn Valdimarsson stígur loksins aftur í búrið um helgina eftir tíu ára hlé. Ansi margt hefur breyst frá því Ingþór tók sinn fyrsta bardaga og er núna rétti tíminn til að fara aftur í búrið.

Fimm Íslendingar keppa á FightStar 13 bardagakvöldinu í London á laugardaginn en þar af eru þrír að berjast atvinnubardaga. Aldrei áður hafa svo margir Íslendingar barist atvinnubardaga á sama kvöldi og er því um sögulega stund að ræða.

Flestir af íslensku keppendum helgarinnar vissu varla hvað MMA var árið 2007 en það ár tók Ingþór sinn fyrsta og eina MMA bardaga til þessa.

Þann 5. maí 2007 kepptu tveir Íslendingar á Adrenaline 1 bardagakvöldinu í Danmörku. Báðir voru að berjast sinn fyrsta MMA bardaga og hafa báðir aðilar farið ólíkar leiðir. Gunnar Nelson háði jafntefli þetta kvöld við Danann John Olesen og berst auðvitað í UFC í dag. Ingþór tapaði aftur á móti eftir að hafa fengið skurð í 1. lotu og hefur ekki stigið í búrið síðan. En hvers vegna hefur hann ekkert keppt í MMA síðan þá?

„Eftir tapið 2007, þrátt fyrir að það hafi stoppað á skurði, þá sagði sá slagur mér allt um hversu góður ég þyrfti að vera í gólfinu og glímunni. Svo mér fannst prýðis hugmynd að næla mér í svört belti í Júdó og BJJ, þá hlyti þetta að vera komið. Það kom 2015, svo núna er ég bara búinn að vera uppfæra boxið mitt með daglegum tímum hjá Daða [Ástþórssyni, boxþjálfara],“ segir Ingþór

Síðan þá hefur hann byggt upp Fenri á Akureyri og löngu orðinn nógu góður í glímunni. Að mati Ingþórs er þetta rétti tíminn til að berjast. Ingþór var kominn með bardaga á síðasta FightStar bardagakvöldi í október en þrír andstæðingar duttu út og varð því ekkert af bardaganum. Ingþór var ekkert svo svekktur og mætir nú sama andstæðingi og hann átti upphaflega að mæta í október.

„Þetta skipti mig litlu máli og mætti ég bara á æfingu næsta dag enda er enginn ‘næsti’ bardagi að fara að vera einhver endastöð. Ég slæst eins lengi og skrokkurinn leyfir. Ég er alltaf að fara að berjast, það verður þessi bardagi og svo annar, síðan Jiu-Jitsu mót og fleiri boxbardagar. Kickbox mögulega líka.“

Hinn 33 ára Ingþór er núna svart belti í júdó og brasilísku jiu-jitsu, boxar reglulega með Kolbeini Kristinssyni (atvinnuboxara) og er einnig búinn með átta bardaga í Muay Thai. Aðspurður hverjir sínir helstu styrkleikar séu segir hann: „Ég er með geggjuð fatality moves. Þetta verður ægilega gaman og spennandi. Hlakka rosa til að fara í búrið.“

Ingþór er formaður Fenris og hefur hann undirbúið sig á sínum heimaslóðum fyrir bardagann. Það verður afar forvitnilegt að sjá hann aftur í búrinu enda fáir Íslendingar sem hafa keppt í jafn mörgum bardagaíþróttum og hann.

Ingþór mætir Dawid Panfil í millivigt en fimm Íslendingar berjast á FightStar kvöldinu á morgun. Eftirtaldir bardagar verða á dagskrá:

Titilbardagi í léttvigt: Bjarki Þór Pálsson (4-0) gegn Stephen O’Keeffe (7-3)
Fjaðurvigt: Bjarki Ómarsson (0-0) gegn Mehmosh Raza (4-1)
Millivigt: Ingþór Örn Valdimarsson (0-1) gegn Dawid Panfil (0-0)
Fjaðurvigt: Bjartur Guðlaugsson (2-3) gegn Dario Drotar (2-0)
Hentivigt (68 kg): Jeremy Aclipen (0-0) gegn Callum Haughian (1-1)

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular