spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJafnar Demetrious Johnson met Anderson Silva á morgun?

Jafnar Demetrious Johnson met Anderson Silva á morgun?

Demetrious Johnson mætir Wilson Reis á UFC on Fox 24 bardagakvöldinu annað kvöld. Með sigri jafnar hann met Anderson Silva.

Fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson hefur verið fluguvigtarmeistari UFC frá árinu 2012. Að margra mati er hann besti bardagamaður heims, pund fyrir pund, en á morgun getur hann jafnað met eins besta bardagamanns allra tíma.

Anderson Silva var ótrúlegur bardagamaður þegar hann var upp á sitt besta. Hann hélt millivigtinni í heljargreypum og átti mögnuð ár á toppi þyngdarflokksins. Silva varði beltið sitt tíu sinnum eða þar til hann tapaði beltinu til Chris Weidman árið 2013.

Á morgun getur Demetrious Johnson jafnað met Anderson Silva yfir flestar titilvarnir í sögu UFC. Síðan Johnson vann beltið í september 2012 hefur hann varið beltið níu sinnum. Johnson jafnaði fyrrum veltivigtarkónginn Georges St. Pierre með níu titilvarnir er hann sigraði Tim Elliot í desember á síðasta ári.

Það má segja að þegar kemur að metunum sé Johnson maður meðal kónga. Á tíma Anderson Silva var hann stærsta stjarna UFC og einn af þeim bardagamönnum sem allir MMA aðdáendur hreinlega urðu að horfa á. Georges St. Pierre var sömuleiðis risastjarna og einn sá söluhæsti þegar kemur að Pay Per View sölu í UFC.

Því miður er Demetrious Johnson langt frá því að vera sama stjarna. Hann trekkir lítið að þrátt fyrir yfirburði sína og ótrúlega hæfileika. Bardaginn á morgun verður í beinni útsendingu á Fox en UFC setur afar sjaldan titilbardaga á ókeypis kvöldunum. UFC setur oftast titilbardagana á Pay Per View kvöldin enda eru það stærstu kvöldin. Bardaginn á morgun verður hins vegar fjórði titilbardagi Johnson á Fox sjónvarpsstöðinni og hans fimmti sem er ekki á Pay Per View kvöldi.

Það eru ýmsar ástæður fyrir óvinsældum Johnson en það hjálpar svo sannarlega ekki hve auðveldlega hann lætur þetta líta út. Johnson hefur komist nokkuð auðveldlega í gegnum titilbardagana að undanskildum fyrri bardögunum gegn Joseph Benavidez og John Dodson.

Johnson er núna svo langt á undan samkeppninni að bardagar hans eru ekki eins spennandi líkt og venjulegir titilbardagar. Hann hefur þegar unnið alla bestu bardagamenn flokksins eins og Benavidez, Dodson og Henry Cejudo og mætir núna Wilson Reis. Sá brasilíski er hörku bardagamaður en síðustu þrír sigrar hans hafa ekki beint verið gegn fyrrum heimsmeisturum. Ulka Sasaki, Hector Sandoval og Dustin Ortiz eru nokkuð langt frá toppnum og ekki nöfn sem eru á allra vörum en skiluðu honum engu að síður titilbardaga.

En þetta er MMA og allt getur gerst. Það væri reyndar alveg dæmigert að Wilson Reis myndi koma öllum á óvart og sigra Johnson núna þegar hann getur jafnað metið.

Takist Johnson að sigra hefur hann hljóðlega skrifað nafn sitt í sögubækurnar. Anderson Silva og Georges St. Pierre fengu talsvert meiri athygli frá aðdáendum og fjölmiðlum þegar þeir voru upp á sitt besta. Það er eiginlega sama hvað Johnson gerir. Þó hann bæti met Anderson Silva, komist jafnvel upp í 15 titilvarnir, mun hann aldrei fá jafn mikla athygli og þeir Anderson Silva og Georges St. Pierre fengu.

Mun Johnson jafna metið á morgun eða fáum við gífurlega óvænt úrslit? Það kemur í ljós annað kvöld á UFC on Fox 24 bardagakvöldinu sem fer fram í Kansas. Aðalhluti bardagakvöldsins verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en bein útsending hefst á miðnætti.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular