Ævintýri Johny Hendricks í millivigtinni heldur áfram þann 4. nóvember í New York. Hendricks mætir þá Paulo Borrachinha á UFC 217 í Madison Square Garden.
Ferill fyrrum veltivigtarmeistarans Johny Hendricks er í frjálsu falli en hann hefur tapað fimm af síðust sjö bardögum sínum. Hann færði sig upp í millivigt á þessu ári og komst aftur á sigurbraut með sigri á Hector Lombard.
Allt gekk þó á afturfótunum þegar hann mætti Tim Boetsch í júní. Hendricks mistókst að ná millivigtartakmarkinu og tapaði eftir rothögg í 2. lotu.
Hann mætir Paulo Borrachinha í nóvember en Borrachinha er 10-0 á MMA ferlinum og hefur klárað báða bardaga sína í UFC. Nú verður Hendricks notaður til að byggja upp nafn Borrachinha og verður áhugavert að sjá hvar sá brasilíski stendur í millivigtinni á þessu stigi ferilsins.
Þetta er fyrsti bardaginn sem staðfestur hefur verið á UFC 217 en frá þessu greinir brasilíski vefurinn Combate. Þetta verður önnur heimsókn UFC í Madison Square Garden og má búast við mikilli bardagaveislu þann 4. nóvember.