Friday, April 19, 2024
HomeErlentJon Jones fær eins bardaga leyfi til að berjast í Nevada

Jon Jones fær eins bardaga leyfi til að berjast í Nevada

Það var nóg að gera hjá íþróttasambandi Nevada fylkis í dag. Eins og áður kom fram voru mál Khabib Nurmagomedov og Conor McGregor tekin fyrir í dag en þá var einnig lyfjamál Jon Jones til athugunar.

Jon Jones fékk í dag eins bardaga leyfi til að berjast í Nevada fylki. Vanalega fá keppendur bardagaleyfi sem er virkt í eitt ár en bardagaleyfi Jones er bara fram yfir hans næsta bardaga. Íþróttasamband Nevada fylkis (NAC) vill sjá Jones í frekari lyfjaprófum áður en hann fær lengra bardagaleyfi.

Aðeins örfáum mínútum eftir að Jones var búinn að fá leyfið sitt var bardaginn gegn Anthony Smith á UFC 235 staðfestur. Bardaginn var sagður í vinnslu snemma í janúar en UFC gat ekki staðfest hann fyrr en Jones væri búinn að fá bardagaleyfið sitt. UFC 235 fer fram í Las Vegas þann 2. mars.

Jones þarf þó að fara í strangari lyfjapróf heldur en aðrir bardagamenn. Eftir að örlítið magn af steranum turinabol fundust í lyfjaprófi hans skömmu fyrir hans síðasta bardaga telja sérfræðingar að þetta séu leyfar af fyrri inntöku af steranum – nokkuð sem þegar var búið að refsa honum fyrir með síðasta banni hans. Sérfræðingar í lyfjamálum vilja vita meira um þessar óvenjulegu niðurstöður Jones enda eru píkógrömm af steranum að finnast stundum og stundum ekki. Jones verður því tekinn í mörg lyfjapróf á næstunni.

9. ágúst: Ekkert fannst
29. ágúst: 8 píkógrömm fundust
18. september: 19 píkógrömm fundust
21. september: Ekkert fannst
2. október: Ekkert fannst
11. október: Ekkert fannst
14. nóvember: Ekkert fannst
9. desember: 60 píkógrömm fundust
28. desember: 33 píkógrömm fundust
29. desember: Ekkert fannst

Jones mun enn vera prófaður af USADA (sem sér um öll lyfjamál UFC) en mun einnig gangast undir lyfjapróf af VADA (voluntary Anti-Doping Agency) og NAC. NAC mun lyfjaprófa Jones að minnsta kosti tvisvar í mánuði fyrir bardaga hans og mun halda áfram að taka hann í óvænt lyfjapróf út árið til að ganga úr skugga um að hann sé ekki að svindla. Jones mun þurfa að borga fyrir lyfjaprófin sem tekin verða af NAC.

Mál Jones tók þrjá tíma að klára í dag þar sem nokkrir sérfræðingar tóku til máls. Þar á meðal voru Jeff Cook (yfirmaður hjá USADA), Matthew Fedoruk (yfirvísindamaður USADA) og Dr. Daniel Eichner (framkvæmdastjóri SMRTL rannsóknarstofunnar í Salt Lake City). Allir svöruðu þeir fjölmörgum spurningum NAC um vísindin á bakvið niðurstöður lyfjaprófa Jon Jones. Allir sögðu þeir að núverandi fræði geti ómögulega sagt hversu lengi langtímaleyfar af turinabol geti fundist í íþróttamanni eftir inntöku.

NAC gagnrýndi meðferð USADA á málinu en USADA upplýsti ekki íþróttasamband Kaliforníu (CSAC) um lyfjaprófin í ágúst og september þar sem örlitlar leyfar af turinabol fundust þegar Jones fékk leyfi til að berjast í Kaliforníu í desember. Anthony Marnell, formaður NAC, sagði að yfirlýsingar USADA vegna málsins væru linar.

Það verður því grandlega fylgst með lyfjaprófum Jon Jones á næstunni enda þrír aðilar sem munu taka hann í lyfjapróf og skoða niðurstöður hans. Það er því eins gott að Jones drekki nóg af vatni enda þarf hann að skila af sér mörgum þvagprufum á næstu vikum.

Jones sendi frá sér stutta yfirlýsingu eftir yfirheyrsluna.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular