spot_img
Thursday, November 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJon Jones fékk eins árs bann frá USADA - Kennir stinningarlyfi um

Jon Jones fékk eins árs bann frá USADA – Kennir stinningarlyfi um

UFC 165: Jones v GustafssonJon Jones hlaut í dag eins árs bann frá keppni fyrir að falla á lyfjaprófi í aðdraganda UFC 200 í sumar. Líkt og Anderson Silva kennir Jones stinningarlyfi um.

Jones fékk bannið frá USADA og nær frá 6. júlí 2016 en það er sú dagsetningin þar sem kom í ljós að Jones hefði fallið á lyfjaprófinu umtalaða. Lyfjaprófið var tekið í aðdraganda bardaga hans við Daniel Cormier en niðurstöðurnar lágu fyrir aðeins nokkrum dögum fyrir bardagann.

Jones hélt því fram að hann hafi tekið stinningarlyf sem innihélt ólöglegu efnin. Það er í ætt við þá málsvörn sem Anderson Silva notaði í sínu máli fyrir tæpum tveimur árum síðan.

USADA og Jones fengu til liðs við sig óháða nefnd sem fór yfir málið og hún lagði til að bannið yrði til eins árs. Ástæðurnar fyrir svo löngu banni eru sagðar þær að það hafi verið sök Jones að hafa ekki kynnt sér lyfið og innihald þess betur.

Nefndin taldi einnig ekki ástæðu til að dæma hann í sex mánaða keppnisbann líkt og Yoel Romero og Tim Means fengu en í þeirra tilfelli var um að ræða fæðubótarefni sem innihélt ólögleg efni án þeirra vitundar.

Jones segist hafa fengið pilluna hjá æfingafélaga sínum og ekki hugsað út í hvort pillan innihéldi ólögleg efni. Það eina sem hann hugsaði um var hvort pillan gerði sitt gagn eða ekki.

Eins árs bann er hámarksrefsing sem USADA gat veitt, enda falla efnin sem Jones reyndist hafa tekið inn undir „sértæk efni“ sem þýðir að þau eiga ekki að hafa áhrif á frammistöðu í keppni.

Efnin sem fundust eru svo kallaðir estrógen hindrar en estrógen hindrandi lyf eru í sjálfu sér ekki árangursbætandi ein og sér. Efnin eru bönnuð af USADA þar sem þau eru jafnan notuð eftir steranotkun á meðan hormónakerfið er að ná jafnvægi. Estrógen hindrar er samheiti yfir lyf sem hindra virkni eða minnka magn estrógena.

Jones á einnig eftir að fá úrskurð frá íþróttasambandi Nevada sem getur einnig verið bann og sekt. Talið er að Jones hafi misst af um 9-10 milljónum dollara þar sem hann gat ekki barist á UFC 200.
spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular