Næsta titilvörn Jon Jones verður gegn Dominick Reyes. Bardaginn fer fram þann 8. febrúar í Houston.
Jon Jones (25-1) er ríkjandi léttþungavigtarmeistari en hann sigraði Thiago Santos síðast. Það var síður en svo sannfærandi sigur og sigraði Jones eftir klofna dómaraákvörðun í júlí.
Nú er hann kominn með næsta bardaga en Jones mætir Dominick Reyes (12-0) þann 8. febrúar. Dominick Reyes hefur litið vel út í UFC og unnið alla sex bardaga sína í UFC. Af 12 sigrum eru sjö eftir rothögg og verður áhugavert að sjá hvað hann getur gert gegn Jones.
Bardaginn verður að öllum líkindum aðalbardaginn á UFC 247 en bardagakvöldið gæti endað á að heita UFC 246. UFC stefnir á að halda stórt bardagakvöld þann 18. janúar en veltur á því hvort Conor McGregor berjist eða ekki. Ef Conor berst verður bardagakvöldið Pay-Per-View, UFC 246, en ef ekki verður það Fight Night.
Fyrr í dag greindi UFC frá því að Valentina Shevchenko muni verja fluguvigtartitil sinn þegar hún mætir Katlyn Chookagian á sama kvöldi.