Jon Jones vill berjast sem oftast á árinu 2019 eftir að hafa lítið barist undanfarin ár. Nú er Jon Jones með augun á Anthony Smith fyrir næstu titilvörn sína í léttþungavigtinni.
Margir vilja sjá Jon Jones mæta Daniel Cormier næst, hvort sem það verður í þungavigt eða léttþungavigt. Jones er ekki á því að fara upp í þungavigt eins og er og ætlar bara að mæta Cormier ef hann kemur aftur niður í léttþungavigt. Á sama tíma virðist Cormier sáttur í þungavigt.
Jones er því að horfa á aðra mögulega áskorendur og þar virðist Anthony Smith vera efstur á blaði. Smith er 3-0 síðan hann fór upp í léttþungavigtina í fyrra en síðast sáum við hann vinna Volkan Oezdemir í haust. Smith hefur þegar rætt við UFC um mögulegan titilbardaga. „Það hljómar eins og Jon sé til. Umboðsmaðurinn minn hefur þegar verið að tala við UFC og ég held að þeir séu að vinna í þessu og finna réttu tímasetninguna og svona. En ég er til,“ sagði Smith við TMZ á dögunum.
Upphaflega var Smith að tala um að berjast við Jones næsta sumar en Jones vill berjast aftur sem fyrst. Jones póstaði þessu á Instagram á dögunum og virðist vera að skoða Smith vel.
Jones þarf fyrst að standast öll lyfjapróf sem tekin voru síðustu dagana fyrir UFC 232 áður en hann fer að hugsa um næsta bardaga. Auk þess þarf hann að mæta fyrir Íþróttasambandið í Nevada fylki þar sem lyfjaprófið í kringum UFC 232 verður til skoðunar.