Sýni frá léttþungavigtarmeistara UFC, Jon Jones, voru send í CIR-próf til að skera úr um hvort hann hefði gerst sekur um ólöglega testósterónnotkun. Ekkert óeðlilegt kom fram á sýnunum annað en niðurbrotsefni kókaíns.
Vegna óeðlilegs testósterónmagns í sýnum Jones var mikill þrýstingur í gær á íþróttaeftirlit Nevada að framkvæma svokallað CIR-próf á sýnum hans til að kanna nánar hvort hann hafi notað ólögleg frammistöðubætandi efni. Sérfræðingar segja að Jones gæti ekki falið ólöglega testósterónnotkun á CIR-prófi.
Bob Bennett, framkvæmdastjóri íþróttaeftirlits Nevada, segir að CIR-próf hafi farið fram á sýnum Jones frá því í desember og að það eina sem hafi komið fram séu niðurbrotsefni kókaíns. Þetta kom fram í viðtali við Bleacher Report.
„CIT próf fór fram og samkvæmt lækninum okkar var ekkert við niðurstöðurnar að athuga,“ sagði Bennett. „Það eina neikvæða var jákvæð svörun fyrir niðurbrotsefni kókaíns.Við erum með lækni sem við vinnum með sem hefur staðið sig óaðfinnanlega síðustu sjö mánuði.“
Þetta var svar Bennett við spurningum um CIR-próf svo væntanlega átti hann við CIR-próf, þó hann hafi ranglega kallað það CIT.