spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJorge Masvidal segist vera í vandræðum með að fá andstæðing og skorar...

Jorge Masvidal segist vera í vandræðum með að fá andstæðing og skorar á Darren Till

Jorge Masvidal hefur mikinn áhuga á að berjast við Darren Till í London. Masvidal hafði í síðustu viku engan áhuga á að berjast gegn Gunnari Nelson en nú segist hann ekki geta fengið andstæðing.

Jorge Masvidal barðist ekkert árið 2018 en situr 9. sæti styrkleikalistans í veltivigtinni. Masvidal vill fá bardaga í mars eða apríl og segist nú vera í erfiðleikum með að fá bardaga. Á Twitter óskaði hann eftir bardaga gegn Darren Till í London.

„Heyrði að þú værir í sömu vandræðum og ég við að finna einhvern til að berjast við þig á þínum heimavelli,“ sagði Masvidal m.a. í færslunni á Twitter. Masvidal vill því meina að hann hafi átt í erfiðleikum með að fá andstæðinga en hefur hingað til ekki viljað berjast við Gunnar þegar það var í boði. Í síðustu viku sagði hann þetta um mögulegan bardaga gegn Gunnari: „Gunnar myndi bara reyna að riðlast á mér og hnoðast (e. dry hump) og kela við lærin mín og svona. En ég myndi rota hann,“ sagði Jorge Masvidal við MMA Junkie.

Masvidal virðist helst vilja fá einhvern sem vill standa og skiptast á höggum við sig. Darren Till er líklegri til að vera til í það heldur en Gunnar en Till hefur einnig lýst því yfir að hann vilji berjast í London. Talað var um mögulegan bardaga Till gegn Colby Covington en Covington vill einungis berjast ef hann fær jafn mikið borgað líkt og um titilbardaga væri að ræða. Covington var bráðabirgðarmeistari í veltivigtinni en var sviptur titlinum þegar hann gat ekki barist gegn meistaranum Tyron Woodley í september.

Á sama tíma er Gunnar að bíða eftir að fá staðfestan bardaga. Gunnar barðist í desember í fyrra eftir langa fjarveru og vill berjast aftur sem fyrst. Gunnar hefur lýst því yfir að hann vilji berjast á UFC bardagakvöldinu í London í mars.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular