0

T.J. Dillashaw: Niðurskurðurinn ekkert vesen

T.J. Dillashaw segir að allt gangi samkvæmt áætlun fyrir titilbardaga sinn í fluguvigt á laugardaginn. Dillashaw er að fara í fyrsta sinn niður í fluguvigt og hefur ekki miklar áhyggjur af niðurskurðinum.

Ríkjandi bantamvigtarmeistari T.J. Dillashaw mun skora á fluguvigtarmeistarann Henry Cejudo á fyrsta bardagakvöldi UFC á ESPN á laugardaginn. Niðurskuður Dillashaw niður í fluguvigt hefur vakið athygli enda er hann grannur og afar skorinn á öllum myndum en margir efast um að hann geti náð vigt á föstudaginn.

Dillashaw byrjaði að létta sig fyrir 12 vikum síðan og hefur gert það með aðstoð styrktar- og þrekþjálfarans Sam Calavitta. Dillashaw lýsir Calavitta sem „klikkuðum vísindamanni“ en Calvitta notar algóriþma til að koma Dillashaw niður í 125 pundin.

Dillashaw er meðvitaður um umræðuna um sig á samfélagsmiðlum en segir að sér hafi aldrei liðið jafn vel. „Auðvitað verð ég horaður, ég er að fara niður um þyngdarflokk. Ef ég ætlaði að losa þetta allt af mér kvöldið fyrir vigtun myndi ég líta betur út en það myndi hafa áhrif á frammistöðuna. Ég hef meiri áhyggjur af frammistöðunni,“ sagði Dillashaw við fjölmiðla á mánudaginn.

Dillashaw keppir í 135 punda (61,2 kg) bantamvigt þar sem hann er meistari en nú fer hann niður í 125 pund (56,7 kg) fluguvigt. Dillashaw segir að hann sé vanalega 150 pund (68 kg) á mánudegi fyrir bardaga en nú sé hann 135 pund. Dillashaw segir að niðurskurðurinn sé ekki eins erfiður og hann hélt.

„Þetta er ekkert vesen. Ég vissi alltaf að ég gæti náð þessari þyngd en það kemur mér á óvart hve vel mér líður við að skera niður. Það er bara af því ég er að gera þetta eins og atvinnumaður. Niðurskurðurinn er nánast búinn. Núna þarf ég bara að losa síðustu kílóin með smá brögðum. Mataræðið mitt hefur verið mjög strangt og æfingarnar líka. Ég er grannur og þó enginn trúir mér þá er ég samt sterkari en fyrir minn síðasta bardaga.“

Dillashaw bendir einnig á að Cejudo hafi tvisvar ekki náð tilsettri þyngd í fluguvigtinni og telur að niðurskurðurinn sé erfiðari hjá Cejudo.

Bardagakvöldið verður sýnt á nýrri streymisþjónustu ESPN (ESPN+) en þjónustan er ekki aðgengileg á Íslandi. Allir bardagarnir verða þó aðgengilegir á Fight Pass rás UFC og svo verður aðalhluti bardagakvöldsins sýndur á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.