Fyrrverandi UFC bardagamennirnir Jorge Masvidal og Nate Diaz, sem börðust fyrir BMF beltið upphaflega, munu mætast í hnefaleikum 1. júní nk. í Inglewood, Kaliforníu.
Hinn 39 ára gamli Masvidal ákvað að leggjast í helgan stein eftir tapið gegn Gilbert Burns í mars 2023, sem var hans fjórða tap í röð, en snýr núna tilbaka gegn Nate Diaz í hnefaleikabardaga og fullyrðir hann að hann muni einnig snúa tilbaka í UFC.
Hann segist hafa áhuga á að mæta allt frá Logan Paul til Floyd Mayweather og Manny Paquiao í hnefaleikum og hann muni jafnframt snúa tilbaka í UFC þar sem hann geti ekki endað ferilinn á taphrinu.
“Ég er klárlega að koma aftur í UFC og ná í W fyrir borgina mína, fyrir fjölskylduna mína, börnin mín og alla sem trúa á mig. Ég verð að snúa aftur í UFC.”
Masvidal þykir ansi sigurstranglegur gegn Diaz sem leit alls ekki vel út í hnefaleikabardaga gegn Jake Paul í ágúst 2023. Það verður svo áhugavert að fylgjast með gangi mála hjá þeim báðum í framhaldinu því Nate Diaz hefur heldur ekki útilokað endurkomu í UFC og hafa margir leyft sér að dreyma um Trilogy bardaga milli hans og Conor McGregor núna þegar Írinn alræmdi er einnig að snúa tilbaka.