Jose Aldo getur ekki beðið eftir að stíga inn í búrið með Conor McGregor. Hinn málglaði Íri hefur notað öll brögðin í bókinni til að komast í hausinn á Aldo sem hikar ekki við að svara fyrir sig.
„Ég ætla auðvitað að vinna, það er markmiðið, ekkert annað en það. En þið getið verið viss um að ég mun meiða hann meira en ég hef gert við alla aðra andstæðinga mína. Hann mun yfirgefa búrið blár og marinn á meðan ég yfirgef búrið sem sigurvegari,“ sagði Aldo við Combate.
Fjaðurvigtarmeistarinn gefur lítið fyrir kjaftinn á McGregor og segir þetta ekkert vera nema ein stór sýning fyrir myndavélarnar. Aldo telur að um leið og McGregor sjái myndavélarnar byrji hann að leika hálfgert hlutverk til að vekja athygli á sér.
McGregor varð bráðabirgðarmeistari (e. interim champion) fjaðurvigtarinnar eftir að hafa sigrað Chad Mendes á UFC 189. Aldo hefur áður lýst bráðabirgðarbeltinu sem dótabelti. Viðureign þeirra mun eiga sér stað þann 12. desember á UFC 194 í Las Vegas. Sama kvöld mætir Gunnar Nelson Demian Maia.