spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJose Aldo vill fá samningi sínum við UFC rift

Jose Aldo vill fá samningi sínum við UFC rift

Jose Aldo
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Jose Aldo er afar ósáttur með UFC þessa dagana. Aldo er ósáttur með að Conor McGregor fái að halda fjaðurvigtarbeltinu á meðan Írinn skorar á léttvigtarmeistarann Eddie Alvarez.

Jose Aldo er bráðabirgðarmeistari (e. interim champion) UFC í fjaðurvigtinni. Aldo kom til baka í sumar og vann Frankie Edgar eftir 13 sekúndna tap sitt fyrir Conor í desember. Með sigrinum hélt hann að hann hefði tryggt sér annað tækifæri gegn Conor en svo var ekki.

„Ég hélt að ég myndi fá annan bardaga gegn Conor til að sameina beltin eða fá alvöru beltið aftur og berjast við Max Holloway eða Anthony Pettis. Dana White sagði allan tímann að Conor gæti ekki haldið báðum beltunum. Það kom mér því verulega á óvart þegar ég heyrði af bardaga McGregor og Eddie Alvarez. Til að bæta gráu ofan á svart fær Conor að halda fjaðurvigtarbeltinu og hugsanlega vera handhafi tveggja titla á sama tíma,“ sagði Aldo við brasilíska miðilinn Combate.

Af þeim sökum hefur Aldo engan áhuga á að berjast í UFC og óskaði eftir því að fá samningi sínum rift.

„Ég get ekki treyst því sem Dana White segir. Conor McGregor er við stjórnvölinn núna. Ég er ekki hér til að vera starfsmaður Conor McGregor svo ég óskaði eftir að fá samningi mínum við UFC rift. Þegar mér var boðið að berjast við Frankie Edgar sagði Dana að sigurvegarinn fengi titilbardaga gegn McGregor og að hann myndi verða sviptur fjaðurvigtarbeltinu ef hann kæmi ekki aftur niður eftir bardagann gegn Nate Diaz. Eftir að hafa verið blekktur svo oft langar mig ekki að berjast aftur fyrir UFC.“

Jose Aldo vildi á sínum tíma fara upp í léttvigtina og mæta þáverandi meistara Anthony Pettis. „Conor ræður ferðinni. Þegar ég vildi fara upp til að berjast við Anthony Pettis sögðu þeir að ég þyrfti að láta beltið af hendi og berjast annan bardaga fyrst [í léttvigtinni]. Conor fær að fara upp um flokk án þess að missa beltið sitt og hann má berjast við hvern sem hann vill. Ég veit að hann selur mikið en allt á sér sín takmörk. Þetta er ekki lengur íþrótt heldur sirkús. Mig langar ekki að berjast í UFC, mig langar bara að fá að halda áfram með líf mitt.“

Dana White, forseti UFC, sagði í viðtali við Combate að hann ætlaði að hringja í Jose Aldo og ræða málin. Aldo bætti svo við í öðru viðtali að hann vilji hætta í MMA. „Mig langar ekki að berjast aftur í MMA. Ég vil keppa í öðrum íþróttum, það er það sem ég vil.“

Það verður að koma í ljós hvað verður úr þessu. Jose Aldo er skiljanlega ósáttur með sína stöðu og verður forvitnilegt að sjá framvindu þessa máls.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular