Þungavigtarmaðurinn Josh Barnett er sagður hafa fallið á lyfjaprófi. Prófið var framkvæmt utan keppnis þann 9. desember en ekki er vitað hvaða ólöglega efni fannst í lyfjaprófinu.
UFC tilkynnti í gær að Barnett hefði brotið lyfjastefnu UFC en lyfjaprófið var tekið af USADA. Barnett hefur 13 sinnum verið tekinn í lyfjapróf af USADA í ár.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hinn 39 ára Barnett fellur á lyfjaprófi. Árið 2001 vann hann Bobby Hoffmann á UFC 34 og fékk einungis viðvörun eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Í næsta bardaga hans vann hann þungavigtartitilinn eftir sigur á Randy Couture árið 2002. Hann var hins vegar sviptur titlinum eftir að ólögleg efni fundust í lyfjaprófinu hans.
Frægasta lyfjaprófið hans kom hins vegar árið 2009. Barnett átti að mæta Fedor Emelianenko í Affliction bardagasamtökunum en tíu dögum fyrir bardagann féll Barnett á lyfjaprófi. Anabólískir sterar fundust í lyfjaprófinu og var bardagakvöldið fellt niður eftir að aðalbardagi Barnett og Emelianenko var úr sögunni. Bardagasamtökin voru sömuleiðis lögð niður og hefur Barnett oft verið kennt um hvernig fór fyrir Affliction.
Barnett hefur aldrei litið út eins og steraður þungavigtarmaður en samt fallið fjórum sinnum á lyfjaprófi. Barnett barðist tvisvar í ár en hann tapaði fyrir Ben Rothwell í janúar og vann Andrei Arlovski í september.