spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentKhabib Nurmagomedov svarar fyrir sig

Khabib Nurmagomedov svarar fyrir sig

Khabib Nurmagomedov svarar þeirri gangrýni sem hann hefur hlotið fyrir að taka ekki bardagann við Tony Ferguson á UFC 249.

Það er auðvelt að ímynda sér að fokið sé í flest skjól fyrir Dana White um að ná að halda UFC 249. Þrátt fyrir það virðist Dana ekki ætla að víkja frá því að færa heiminum bardagakvöld þann 18. apríl.

Dana stendur fastur á því að hann sé kominn með staðsetningu fyrir bardagakvöldið en neitar að gefa upp nákvæmlega hvar það mun fara fram. Dana lét hafa eftir sér að hann ætlaði ekki að segja fjölmiðlum frá staðsetningunni vegna þess að það „eina sem fjölmiðlamenn gera er að skemma fyrir.“

Khabib ætlaði sér alltaf að verja beltið sitt á UFC 249 en í fyrradag gaf hann út yfirlýsingu um að hann muni ekki stíga inn í búrið vegna veirunnar og þeirra lamandi áhrifa sem hún hefur haft á alþjóðasamfélagið. Auk þess hefur landamærum Rússlands verið lokað og er erfitt að ferðast til og frá landinu.

Í kjölfar yfirlýsingarinnar fór að bera á nokkurri gangrýni í garð ríkjandi léttvigtarmeistaranns og töldu sumir að hann væri að fela sig fyrir Tony Ferguson, þar á meðal Tony sjálfur.

Khabib var svo mættur á Instagram live til að svara þessari gagnrýni í gær. „Ég skil þetta ekki alveg, UFC hefur verið að reyna að finna staðsetningu allan síðastliðinn mánuð og hafa ekki fundið. Eru það mín mistök?“

Khabib sagði frá því að hann og liðið hans hefði komið til Bandaríkjanna 40 dögum fyrir bardagann og æft af miklli eljusemi eins og hann er vanur að gera. Svo hafi hann fengið þær upplýsingar frá UFC að bardagakvöldið myndi pottþétt ekki fara fram í Bandaríkjunum eins og til stóð heldur myndi það að öllum líkindum fara fram í Abu Dhabi þar sem Khabib varði beltið sitt gegn Dustin Poirier í september í fyrra.

Khabib brá þá á það ráð að flytja æfingabúðir sínar frá San Jose í Kaliforníu til Abu Dhabi nokkrum vikum fyrir bardagann. Þegar Khabib og föruneyti hans lentu í Abu Dhabi var klukkan 20:00 á staðartíma og var þeim þá tilkynnt að landamærunum yrði lokað klukkan 24:00 á miðnætti þennan sama dag. Við þær frengir var ákveðið að halda til Dagestan til að halda æfingum áfram og fylgjast með framvindu mála.

„Alla daga hef ég bara verið að æfa og bíða eftir staðsetningu en þeir senda hana aldrei. Núna eru öll hlið lokuð. Rússland er lokað. Bandaríkin eru lokuð, allstaðar er allt lokað. Allir hafa verið sendir heim til sín í sóttkví; allar ríkisstjórnir, frægt fólk og jafnvel Dana (White). Hvar er Dana? Allir eru bara inni hjá sér. Allar ríkisstjórnir, allir forsetar, allt frægt fólk, allir segja sama hlutinn „verið heima hjá ykkur“. Fólk er að deyja daglega. Þúsundir hafa týnt lífi sínu og land númer eitt fyrir kórónaveirunni eru Bandaríkin.“

Khabib líður eins og það sé verið að gera hann að blóraböggli að þessi stærsti bardagi ársins muni ekki lengur fara fram og var hann fljótur að benda á að faraldurinn væri ástæðan.

„Veistu hvað er áhugavert í þessu öllu saman? Ég heiti Khabib, ég er ekki kórónaveiran. Dana er Dana. Tony Ferguson er Tony Ferguson. Nafn mitt er Khabib. En atriði númer eitt sem gerir mig brjálaðan er þegar fólk segir að ég hafi dregið mig út úr bardaganum. Ég er búinn að vera að æfa á fullu síðan í desember. Ég er búinn að vera í Bandaríkjunum í 40 daga að æfa eins og brjálæðingur en svo fer allt á hliðina.“

Síðan beindi Khabib orðum sínum að Tony Ferguson og var bersýnilega meinilla við að Tony hafi verið að senda honum pillur í fjölmiðlum og draga nafn sitt niður í svaðið

„Núna er Tony Ferguson búinn að vera tala skít um mig, hvað með þig? Hann segir ‘Ó ég er ekki með staðsetningu svo ég ætla ekki að berjast’. Ok það sama gildir um mig, ég er í sömu stöðu. Ég er ekki með staðsetningu, gefið mér staðsetningu, hvar eigum við að berjast? Samt er enginn að tala um það?“

Khabib sem er múslimi keppir ekki í UFC yfir ramadan sem hefst núna í þessum mánuði, nánar tiltekið þann 23. apríl. Hann býst ekki við að stíga aftur inn í búrið fyrr en í lok sumars eða í haust – að því gefnu að heimurinn verði kominn aftur í eðlilegt horf. Khabib sagðist vera óviss með framtíðina en hann hafði frétt af því að UFC væri að skipuleggja bardagakvöld í San Francisco í lok ágúst og gaf hann það í skyn að hann gæti snúið aftur í búrið þá, eða hugsanlega um miðjan september þá í Abu Dhabi.

Khabib sagði þó í viðtali við ESPN að hann væri ennþá til í að berjast ef UFC myndi senda honum staðsetningu.

Í raun er óhætt að segja að það verði forvitnilegt hvort UFC 249 fari á annað borð fram. Líkurnar á að bardagakvöldið fari fram eru hverfandi með hverjum deginum sem líður enda á enn eftir að finna stað fyrir bardagakvöldið.

https://www.youtube.com/watch?v=-hbdkPEOnHc&feature=youtu.be&fbclid=IwAR13V8q80eEBwm7qAPlKuAvQb5kOkb3sfKSyCwZonNS8QA6dgXTYHL4rS28&app=desktop
spot_img
spot_img
spot_img
Sjonni
Sjonnihttps://www.mmafrettir.is
-Bardagaáhugamaður -Fjólublátt belti í BJJ -Stjórnamaður í Mjölni -Tölvunarfræðingur
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular